138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í upphafi umræðunnar einungis að drepa á fáeina þætti sem varða þetta frumvarp og á þessu stigi verða þetta frekar almennar hugleiðingar í upphafi málsmeðferðar, því að ég tel mikilvægt að hv. félagsmálanefnd fari vel yfir málið. Ég sit ekki í þeirri nefnd en vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi vildi ég nefna að meðal þess fáa jákvæða sem ég hef heyrt frá hæstv. ríkisstjórn eru áform hennar um fækkun opinberra stofnana. Ég deili þeim áhuga sem fram hefur komið í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á því að fækka opinberum stofnunum og vísa til umræðu sem farið hefur fram hér á undanförnum árum um mikla fjölgun opinberra stofnana. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að nú sé mjög í tísku að tala um að hér hafi vaðið uppi svokölluð nýfrjálshyggja hefur opinberum störfum fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Regluverk hins opinbera hefur þanist út, starfsmönnum hins opinbera hefur fjölgað mjög mikið og svo má lengi telja. Geta menn sem þekkja til nýfrjálshyggjunnar velt fyrir sér hvort það er í samræmi við þá hugmyndafræði þannig að þessu sé til haga haldið.

Ég lýsi sem sagt almennt yfir ánægju með það að ríkisstjórnin hafi farið í það verkefni að leitast við að fækka opinberum stofnunum og sé þegar komin af stað í þeirri vinnu. Ég held að það sé jákvætt og kom mér verulega á óvart að hæstv. ríkisstjórn gekk meira að segja lengra en Verslunarráð Íslands gerði á sínum tíma í tillögugerð sinni um fækkun opinberra stofnana. Ég man eftir tillögum frá Verslunarráði frá því fyrir svona fjórum, fimm árum sem gengu mun skemur en ríkisstjórnin leggur hér til, sem er athyglisvert en engu að síður hlutur sem ber að fagna.

Varðandi þetta er það auðvitað hárrétt sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að með samræmingu og sameiningu opinberra stofnana má ná fram hagræðingu að ýmsu leyti. Hægt er að draga úr kostnaði við yfirstjórn og stoðþjónustu af ýmsu tagi og eins og hæstv. ráðherra hefur bent á er möguleiki á því að ná fram hagræðingu líka í sambandi við starfsstöðvar viðkomandi stofnana vítt og breitt um landið. Það er auðvitað nauðsynlegt að huga að þessu á þeim tímum sem við lifum þar sem draga þarf saman útgjöld hins opinbera og leita sem flestra leiða til þess.

Ég verð hins vegar að segja að þegar ég heyrði fyrst af þessari hugmynd hæstv. félagsmálaráðherra varð ég nokkuð undrandi vegna þess að í mínum huga a.m.k. er starfssvið þeirra tveggja stofnana sem hér eru undir töluvert ólíkt. Þær fást vissulega báðar við málefni sem varða vinnumarkaðinn, fyrirtæki og stöðu launafólks að ýmsu leyti, en verkefnin eru ólík, þ.e. bæði viðfangsefnin og eins kannski sú sérfræðikunnátta sem byggst hefur upp innan stofnananna, þannig að hér er ekki um að ræða einfalda sameiningu. Ég vil samt sem áður ekki útiloka að þetta kunni að vera rökrétt og mun alls ekki leggjast gegn því að þetta verði skoðað. Eins og kom fram í andsvari mínu áðan er ég ekkert alveg sannfærður um þá tillögu sem hér liggur fyrir þó að ég hafi tilhneigingu til að vera jákvæður í hennar garð eins og hún kemur fram.

Þetta snýr auðvitað að fleiri málum, þetta snýr að því hvaða stefna er mörkuð varðandi margvíslega aðra þjónustu hins opinbera eins og aðeins hefur verið drepið hér á, eins og varðandi Tryggingastofnun. Við hæstv. ráðherra áttum svolítil orðaskipti áðan í sambandi við stofnanir hins opinbera, hvort rétt væri að hafa þær stærri og starfssviðið víðara eða hvort rétt væri að hafa smærri og sérhæfðari stofnanir. Í sumum tilvikum hefur mér þótt kannski með stofnun eins og Tryggingastofnun að hún væri jafnvel of stór, að of mörg og margvísleg verkefni féllu þar undir. Ég held að í þessu máli geti alveg verið tvær hliðar á peningnum. Það má segja um þá stofnun sem hér er ráðagerð um, Vinnumarkaðsstofnun, að hún tekur að mestu leyti við starfsemi þeirra stofnana sem eru forverar hennar, annars vegar Vinnumálastofnun, sem á íslenskan mælikvarða er ekkert gömul þó að hún eigi sér rúmlega áratugs sögu, og svo hins vegar Vinnueftirlitsins, sem er mun eldra, og tekur þannig við bæði starfssviði, verkefnum og stofnanakúltúr sem ég hygg að sé mjög ólíkur miðað við þau kynni, sem eru ekkert óskaplega mikil, sem ég hef haft af starfsemi þessara tveggja stofnana. Það er því ljóst að þarna er um að ræða töluvert vandmeðfarið verkefni.

Ég velti fyrir mér, og hæstv. ráðherra getur hugsanlega svarað því nánar en fram kom í andsvörum áðan, hvort fyrir liggur áætlun eða ráðagerð um enn frekari sparnað sem á að hljótast af þessari sameiningu en fram kemur í frumvarpinu. Ég nefndi áðan að miðað við kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins eru þetta tiltölulega litlir peningar sem gert er ráð fyrir að sparist, verði frumvarpið að lögum. Ráðherrann ýjaði að því svona almennum orðum áðan, en ég velti fyrir mér hvort hægt er að fá hæstv. ráðherra til að fara nánar í þann þátt hvað sparist með þessu.

Ég velti líka fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi farið í einhverja vinnu eða sett af stað vinnu til að kanna það hvort ástæða sé til að endurskoða með einhverjum hætti verksvið og starfsemi þessara stofnana að öðru leyti en því að skella þeim bara saman upp á það hugsanlega að draga úr kostnaði. Eins og hæstv. ráðherra gerir sér áreiðanlega grein fyrir er þörfin fyrir sparnað og aðhald í ríkisrekstrinum meiri en svo að henni verði náð með því einu að fækka einhverjum stofnunum eða forstjórum stofnana og kannski sameina tölvudeildir. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur marglýst því yfir og meinar það að standa eigi vörð um grunnþjónustuna, en hefur farið fram úttekt á því eða eitthvert mat á því hvort einhverjir þættir í starfsemi þessara stofnana séu utan þess ramma sem kalla má grunnþjónustu? Þetta segi ég vegna þess að í sambandi við umræður um fjárlög hafa auðvitað komið fram almennar stefnuyfirlýsingar um það að spara svo og svo mikið eða um svo og svo mörg prósent á hinum og þessum sviðum og það er kannski ekki alltaf þannig að hægt sé að kafa djúpt í starfsemi einstakra stofnana við fjárlagagerðina. En nú þegar ætlunin er að sameina tvær stofnanir, vissulega mikilvægar stofnanir í okkar kerfi, hefur tækifærið þá verið notað til að fara ofan í starfsemi þessara stofnana og menn velt fyrir sér hvort einhver verkefni eru þar unnin sem við gætum verið án og ekki eru partur af þeirri grunnþjónustu sem við viljum standa vörð um?

Ég er eiginlega að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ráðuneyti hans og hann sjálfur hafi farið inn á þetta svið raunverulega með það að markmiði að skera alla fituna utan af, því að það er auðvitað það sem við vitum að þarf að gera hvarvetna í ríkisrekstrinum. Í raun og veru er ekki nægjanlegt að stofnanir hafi samkvæmt lögum og samkvæmt einhverjum almennum markmiðslýsingum mikilvægu hlutverki að gegna eða séu að sinna mikilvægum sviðum. Það þarf auðvitað að fara í gegnum starfsemi þeirra með það fyrir augum að sjá hvort þær eru með einhverja þætti í starfsemi sinni sem hafa kannski þanist út og kostnaður aukist meira en ástæða er til, sérstaklega á þeim tíma þegar nóg var af peningum og skatttekjur streymdu í stórum stíl í ríkissjóð, þegar aðhaldsþörfin var miklu minni hjá ríkinu. Það er a.m.k. mín tilfinning að mjög margar stofnanir hins opinbera — ég er ekki að tala um þessar tvær sérstaklega, ég þekki ekki það til þeirra að ég geti lagt mat á það — og sú tilhneiging hefur auðvitað verið mjög víða í ríkisrekstrinum að menn hafi getað þanið starfsemi stofnana út í rauninni í krafti þess að skatttekjur fóru vaxandi ár frá ári um margra ára skeið þannig að hlutirnir voru bara auðveldari.

Í lok máls mín vildi ég því spyrja hæstv. ráðherra hvort í tengslum við þá sameiningu sem hér er fyrirhuguð, í tengslum við þessa áformuðu stofnanabreytingu, hafi verið gerð tilraun til að fara með hnífinn aðeins inn í starfsemi þeirra til að skera burtu fituna, til að skilja það eftir og hafa meira svigrúm til að sinna þeirri nauðsynlegu grunnþjónustu sem þessar stofnanir vissulega veita.