138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[15:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans á frumvarpinu. Það eru nokkur atriði sem hafa vakið áhuga minn á þessu máli núna.

Í fyrsta lagi velti ég aðeins fyrir mér svörum hæstv. ráðherra við andsvörum áðan og ekki síst andsvari hv. þm. Birgis Ármannssonar varðandi samráðið. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt er samráðið að mestu leyti eftir, þ.e. við þá aðila sem talað er um að hafa þurfi samráð við. Mér þætti vænt um að fá staðfestingu á því hvernig því hefur verið háttað fram að þessu.

Hæstv. ráðherra hafði einnig orð á því áðan að öllum yrði boðið starf en ekki endilega sambærilegt starf og fagna ég því að slík yfirlýsing skuli koma fram. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að með þessari sameiningu, og ekki síst vegna þeirra orða sem komu fram áðan um hina svokölluðu sóknaráætlun, sé hugmyndin sú að sameina hugsanlega stofnanir eða starfsstöðvar jafnvel enn meira en talað er um í frumvarpinu. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er talað um það að sameina mögulega þjónustustöðvar. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er einnig rætt um þetta sama og, með leyfi forseta, stendur þar:

„Áætlunin er að sameina starfsstöðvar á þeim sjö stöðum á landsbyggðinni þar sem báðar stofnanirnar eru fyrir.“

Eflaust er óhætt að skoða slíka hluti en ég vil benda á að á tveimur starfsstöðvum hinnar væntanlegu stofnunar, á Hvammstanga og Skagaströnd, eru þær stofnanir sem þessa þjónusta veita lykilvinnustaðir í þeim byggðarlögum. Ég vil því óska eftir því að hæstv. ráðherra staðfesti það að horft verði einnig til byggðasjónarmiða og mikilvægi þessara starfa á þessum stöðum, því að ég tel að það skipti miklu máli.

Hér var spurt áðan hvort horft hafi verið til þess að við værum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið varðandi þessar breytingar og kom það fram að við mundum fá stuðning við þá aðlögun sem hafin er. Er þetta ekki, frú forseti, staðfesting á því að við erum í aðildarferli, þ.e. það er verið að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu, en ekki í eiginlegum samningaviðræðum? Ég get ekki skilið þetta öðruvísi.

Einnig kom það fram, frú forseti, í svari hæstv. ráðherra að hann hefði átt samtöl við, ég man nú ekki hvern, en einhvern af ráðamönnum Evrópusambandsins á vinnumarkaðssviði og ætlaði sér að eiga meira samstarf við hann. Þetta er einnig staðfesting á því sem mörg okkar á þingi höfum haldið fram, að sóknaráætlunin væri í raun undirbúningur að inngöngu Íslands í Evrópusambandið og vil ég meina að það hafi verið staðfest hér áðan. Er það virkilega svo að breytingar sem þessar sé verið að gera í skjóli þess eða réttara sagt verið að fela þá aðlögun sem er í gangi að Evrópusambandinu? Kemur mér þá í hug, frú forseti, setning á bls. 8 í athugasemdum við frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta getur skipt verulegu máli við framkvæmd stærri rannsókna sem Ísland hefur áhuga á að gerast aðili að á vettvangi Evrópusambandsins …“

Hefur það verið markað fyrir hönd Íslands — þarna er talað um Ísland — að taka þátt í fleiri rannsóknum en eru í dag og hver hefur markað þá stefnu? Á þarna ekki að standa í rauninni „ríkisstjórnarinnar“, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra?

Varðandi aðra hlið á þessu máli, sem er spurningin um faglega samlegð þeirra stofnana sem þarna er verið að sameina, verð ég að segja að það er svolítill munur á því að vera að athuga hvort hurðapumpur eru í lagi eða athuga hvort menn eigi rétt á atvinnuleysisbótum. Það er svolítill munur á því. Ég sé ekki alveg samlegðaráhrifin af þessum stofnunum í fljótu bragði en að sjálfsögðu er rétt að gefa nefndinni og ráðherranum færi á að skýra það á næstu dögum hvar sú mikla samlegð liggur í öðru en stjórnum og forstjórum. Ég geri eins og ég segi ákveðnar athugasemdir við að þessi faglega samlegð sé til staðar. Einnig verð ég að taka undið það sem komið hefur fram sem er spurningin um hvort sá kostnaður sem þarna á að sparast, og reyndar kemur annar kostnaður á móti, hvort betur sé heima setið en af stað farið í ljósi þess að menn hurfu frá því að taka Tryggingastofnun inn. Þetta þarf vitanlega allt að skýra.

En ég hef fyrst og fremst áhyggjur, frú forseti, af þeim starfsstöðvum sem um er rætt í frumvarpinu, ég hef áhyggjur af því að líkt og í umræðunni hér um sýslumenn sé þetta miklu meira en akkúrat þau embætti sem um ræðir eða stofnanir, þetta eru lykilvinnustaðir á þessum litlu stöðum. Því óska ég eftir að hæstv. ráðherra lýsi því aðeins hvernig hann sjái framtíð þessara starfsstöðva.

Það sem sló mig einna helst í umræðunni áðan er þessi umræða um aðlögun okkar að Evrópusambandinu sem er klárlega hafin, ef ég gat skilið þau orð sem féllu áðan. Það er spurning hvort hæstv. ráðherra getur svarað því á eftir hvort það sé þannig að horft sé sérstaklega til þeirra stofnana sem hafa sama hlutverki að gegna innan Evrópusambandsins og hvort fyrirmyndin að þeirri stofnun sem hæstv. ráðherra er að búa til núna sé sótt þangað. Mun ráðherra upplýsa þingið um þann stuðning sem hann hyggst óska eftir frá Evrópusambandinu við þessar breytingar?