138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka góðar og málefnalegar umræður um þetta mál. Ég get samt ekki stillt mig um að stríða aðeins hv. þm. Birgi Ármannssyni sem nefndi áðan að útþensla ríkiskerfisins á undanförnum árum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins afsannaði kenningar um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aðhyllst hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Hv. þm. Pétur Blöndal kallaði Sjálfstæðisflokkinn hinn sanna velferðarflokk af því að velferðarmál hefðu þanist út á tíma hans. Ég held að það sé alveg eins hægt að segja að stjórnleysið hjá Sjálfstæðisflokknum hafi verið slíkt að menn hafi ekki einu sinni siglt eftir leiðarljósum nýfrjálshyggjunnar þegar þeir fóru í hana og að þeir hafi tryggt okkur allt tjónið af nýfrjálshyggjunni en enga af ávöxtunum sem ættu að felast í minna stjórnkerfi.

Að öllu gamni slepptu er mikilvægt að velta við hverjum steini í aðhaldsaðgerðum núna og þess vegna horfum við til sameiningar stofnana, til þess að ávinningurinn geti nýst okkur á þessu aðhaldstímabili fram til ársins 2013. Þó að mönnum finnist þetta ekki háar fjárhæðir vega þær þungt í aðhaldsramma okkar. Niðurskurðarramminn á þessu ári fyrir rekstur ráðuneytisins er milljarður. Allt telur þetta. Við viljum auðvitað líka byggja upp betri stofnanir, ná meiri árangri og veita betri þjónustu.

Góð ábending kom frá hv. þm. Birgi Ármannssyni um hvort farið hefði fram úttekt á því hvort einhverjir þættir í starfi stofnananna væru utan ramma grunnþjónustunnar. Það er auðvitað eitt af því sem við ætlum að fara yfir núna í samvinnunni. Ég hef mínar skoðanir á því en ég vil eiga samráð um það við aðila vinnumarkaðarins og starfsmenn og fara yfir það með þeim. Maður sér að ýmsum þáttum væri hægt að koma fyrir með einfaldari hætti og hagræða þannig og að við höfum svigrúm til að gera betur í stofnuninni. Við höfum t.d. ekki sinnt starfsendurhæfingu nógu vel. Hv. þm. Pétur Blöndal flutti ágæta ræðu um mikilvægi endurhæfingar og hann er einlægur áhugamaður um það mikilvæga verkefni. Í aðhaldsaðgerðum þessa árs höfum við verið að skera fituna utan af. Núna þurfum við að ganga lengra og ná frekari hagræðingu ef við eigum að ná aðhaldsmarkmiðum og þá skiptir mjög miklu máli að búa þegar í haginn með sameiningu af þessum toga og að hún skili okkur ávinningi á næstu árum þó að hún geri það ekki strax.

Spurt var um faglega samlegð og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi spurninguna um hver samlegðin væri á milli þjónustu við atvinnulausa og þess að skoða öryggi á hurðapumpum. Það er alveg hárrétt að ekki er augljós samlegð þar á milli. Hins vegar kemur þetta við kerfissetningu hinnar nýju stofnunar. Ég held að verkefni vinnueftirlits séu í sífellt ríkari mæli verkefni um almenna líðan á vinnustöðum en síður tæknilegt eftirlit. Við leggjum meiri og meiri áherslu á snemmbæra íhlutun inni á vinnustöðunum, að fylgjast með hættumerkjum til þess að koma í veg fyrir nákvæmlega það sem hv. þm. Pétur Blöndal talaði um, þ.e. hættuna á nýgengi í örorku þar sem fólk kulnar í starfi. Þar verður samþættingin í starfi þessara stofnana svo ljós. Annars vegar er verkefni Vinnumálastofnunar að sinna þjónustu við atvinnuleitendur og þá sem eru með skerta starfsgetu og hjálpa þeim að komast í störf. Þess vegna er jákvætt að vinnuverndin sé í sömu stofnun þar sem menn geta líka verið með eftirlit á vinnustöðunum, með þróuninni þar, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins sem vinna ágætt starf á sviði starfsendurhæfingar. Þannig fylgjumst við með þeim sem eru í hættu á að kulna í starfi og því að endurhæfingarúrræðin séu í kallfæri við vinnuverndina sjálfa. Það er þessi stóra samlegð sem við sjáum, þ.e. að hjartað í hinni nýju stofnun sé þessi nýja áhersla á tenginguna, á starfshæfnina en ekki örorkumatið í gamaldags skilningi, eins og hv. þm. Pétur Blöndal rakti svo ágætlega hér áðan, og á það að efla fólk og styrkja til þátttöku á vinnumarkaði.

Ég held að báðar stofnanirnar hafi unnið afskaplega gott starf og það er vert að hrósa starfsfólki þeirra. Við ráðumst ekki í þetta vegna þess að við séum óánægð með faglega burði þessara stofnana heldur viljum við styrkja þær. Við viljum gera þeim kleift að mæta enn frekari kröfum um faglegan árangur á tímum þegar samdráttur er fyrirsjáanlegur sem og niðurskurður í fjárveitingum. Mér finnst það ganga kraftaverki næst hvernig Vinnumálastofnun hefur náð að halda utan um skráningu atvinnulausra og tryggja áfallalausa útgreiðslu bóta. Það þarf líka að styðja við vinnumiðlunina. Það er ekki rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir að það sé lítil áhersla á vinnumiðlun. Hún hefði auðvitað mátt vera meiri á þessum miklu samdráttartímum þar sem höfuðáherslan var á að taka við miklum fjölda í nýskráningum atvinnulausra en hjá Vinnumálastofnun er unnið kraftaverk á hverjum degi við að koma fólki til verka. Það merkilega er nefnilega að þrátt fyrir umtalsvert atvinnuleysi hefur það ekki verið mjög fast, þ.e. útflæði hefur verið nokkurn veginn stöðugt á móti innflæðinu. Því er töluverð hreyfing á vinnumarkaðnum og það er ekki síst vegna mikilvægs starfs ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem koma fólki til verka. Auðvitað má gera betur í því og við höfum leitað eftir samstarfi við verkalýðsfélögin sérstaklega um vinnumiðlunina. Við erum að koma af stað tilraunaverkefnum í því efni. Í Hafnarfirði er slíkt verkefni komið af stað og við erum í samningaviðræðum við Kópavogsbæ. Við vinnum nú að því að opna sérstakt útibú í Reykjanesbæ til að styðja við þar. Við viljum vinna með verkalýðsfélögunum á hverjum stað, við viljum vinna með sveitarfélögunum til þess að styðja við vinnumiðlunina og það þarf að nýta þetta fína net stéttarfélaganna. Við þurfum að nýta sveitarfélögin til þess að efla vinnumiðlun úti um allt land.

Virðulegi forseti. Hér var nefnt mikilvægi starfanna úti á landi og óskað eftir staðfestingu á því fyrirkomulagi sem þar er núna. Því er til að svara að við stefnum auðvitað að hagræðingu í þjónustumiðstöðvunum, það hlýtur að vera einn hluti af þeirri hagræðingu sem við horfum á að þjónustan á öllu landinu verði samþætt. Umtalsverður hluti af starfsemi Vinnumálastofnunar er úti á landi í Norðvesturkjördæmi, kjördæmi hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem spurði út í þetta áðan. Það er mér bæði ljúft og skylt að staðfesta að við ætlum ekki að breyta þeirri tilhögun því hún hefur gefist vel. Það eru engin efnisrök fyrir því að samhliða sameiningu af þessum toga þurfi að flytja allar starfsstöðvar til Reykjavíkur. Þvert á móti hefur þessi tilraun gefist ákaflega vel og sama er uppi á teningnum hjá Íbúðalánasjóði sem rekur starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins, það hefur gengið afskaplega vel. Ef eitthvað er auglýsi ég eftir því að fleiri ráðuneyti og opinberar stofnanir horfi til þessa fordæmis og hafi ákveðinn hluta af bakvinnslu eða símsvörun, sem hvorug er sérstaklega næm fyrir staðsetningu, úti á landi. Reynslan af þessum rekstri úr félags- og tryggingamálaráðuneytinu er mjög jákvæð og ég held að frekar ætti að fjölga slíkum störfum úti á landi. Það dregur úr húsnæðiskostnaði hér þar sem húsnæðisverðið er hæst og almennt hefur starfsmannavelta verið minni úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði að umtalsefni ummæli í greinargerð um Evrópusambandið og sá þar glitta í meinlausa mús en tókst að lýsa henni sem miklum dreka. Það sem þar var rætt er ekki flóknara en svo að vísað var til þess að stofnunin hefði betri burði til þess að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, en það hefur lengi verið vilji okkar og stofnana á sviði vinnumála að taka þátt í evrópskum rannsóknarverkefnum. Við horfum til þess að rannsóknargeta sameinaðrar stofnunar verði meiri en í tveimur aðskildum stofnunum. Í því felst ekki að þessi sameining sé hluti af stórri undirhyggjuherferð til þess að koma okkur bakdyramegin inn í Evrópusambandið heldur er fyrst og fremst um að ræða að við viljum styrkja faglega getu stofnananna.

Ég nefndi að Vladimir Spidla, þáverandi framkvæmdastjóri vinnumarkaðsmála, hefði boðið fram aðstoð Evrópusambandsins þegar hann var hér í nóvember. Það var vegna þess ástands sem hér er í atvinnuleysi því að við höfum ekki mikla reynslu af því að glíma við erfitt langtímaatvinnuleysi. Menn hafa víða náð mjög miklum árangri í glímunni við atvinnuleysi innan Evrópusambandsins og það sem hann bauð var aðstoð við stofnanauppbyggingu ef við þyrftum á því að halda. Ég tók að sjálfsögðu vel í það og ég hef fullan hug á að kanna vilja eftirmanns hans til þess að bjóða fram sérfræðiþekkingu. Við höfum verið að leita okkur fyrirmynda á undanförnum missirum. Við höfum verið að glíma við atvinnuleysisvanda sem á sér ekki hliðstæðu í íslenskri sögu og ég hef óhikað leitað fyrirmynda og samráðs við erlenda kollega og haft mjög gott af hugmyndum þeirra. Sérstaklega hef ég leitað fyrirmynda í Danmörku, Hollandi, Noregi og Bretlandi og ég verð að segja alveg eins og er að það hefur gefið góða raun. Við vorum í einna lakastri stöðu hvað varðar lausnir fyrir unga atvinnuleitendur síðasta sumar þegar ég mætti á fyrstu alþjóðlegu fundina. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að eftir það átak sem við réðumst í núna í upphafi þessa árs erum við komin í fararbrodd í Evrópu í þjónustu við ungt atvinnulaust fólk. Það vekur áhuga og aðdáun nágranna okkar að sjá hversu hratt við höfum snúið þessu við. Það er gaman að geta náð árangri á svona erfiðum tímum og gert eitthvað vel í þjónustu við atvinnuleitendur. Í alþjóðlegu samstarfi felst auðvitað bæði að gefa og þiggja og nú er svo komið eftir þetta velheppnaða átak okkar að erlendir kollegar eru farnir að spyrja okkur ráða. Þannig snúast hlutirnir oft fljótt við, sá sem leitaði ráða fyrir hálfu ári er farinn að geta veitt ráð í dag.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en þakka fyrir góða og uppbyggilega umræðu og vonast til að nefndinni gangi vel við meðferð málsins.