138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

Vinnumarkaðsstofnun.

555. mál
[16:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu og greinargóð svör við því sem fram kom hér í umræðunni.

Hæstv. ráðherra nefndi að fleiri ráðuneyti ættu að horfa á þann möguleika að flytja verkefni í auknum mæli út á land og hann nefndi tvö verkefni á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vitnaði til. Þá langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra væri með einhverja vinnu í gangi við að flytja fleiri verkefni út á land. Þessi svæði hafa mátt búa við neikvæðan hagvöxt undanfarin tíu, fimmtán ár. Hefur ráðherra ekki í hyggju að sýna gott fordæmi fyrir önnur ráðuneyti og ráðast í verkefnaflutning út á landsbyggðina?

Síðan langaði mig að spyrja hann út í það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom líka inn á og varðar aðlögun að regluverki Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra vildi meina að glitt hefði í meinlausa mús og við fögnum því náttúrlega að hér í salnum séu kettir sem hafi eftirlit með því að mýsnar fari ekki á kreik. Hann kom líka inn á að reynsla okkar af því að glíma við atvinnuleysi væri ekki mikil því að atvinnuleysi hér hefði alla jafna verið töluvert lægra en í Evrópusambandinu. Við fögnum því ef Evrópusambandið getur lært eitthvað af okkur og ráðherra miðli þá okkar þekkingu og reynslu en ég hvet hann til að gæta þess að þessu verði ekki öfugt farið og kettirnir, sama hvar í flokki þeir séu, muni hafa áfram vökul augu á þessum músum sem hann telur svo meinlausar.