138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[16:47]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara þessari spurningu er rétt að rifja upp að Atvinnuleysistryggingasjóður er hluti af A-hluta fjárlaga og byggja áætlanir um útgjöld hans þar af leiðandi á ýmsum reikniforsendum, spám um atvinnuleysi og svo regluverkinu og hvaða áhrif menn telja að regluverkið og breytingar á því hafi á útstreymi úr sjóðnum. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 1.200 millj. kr. sparnaði samfara minnkandi atvinnuleysi og breytingum á þessum reglum, m.a. með því að takmarka réttindi sjálfstætt starfandi við þrjá mánuði að hámarki. Gert var ráð fyrir 1.200 millj. kr. sparnaði en líka reiknað með því að þessar heimildir giltu bara út mitt árið en ekki árið til enda og kannski var það ágalli í reikniforsendunum sem lagðar voru til grundvallar. Þess vegna er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins geti aukist um 200 millj. kr. á þessu ári þar sem áætlað er að heimildirnar verði virkar út allt almanaksárið. Hins vegar er kostnaðurinn við að afnema skerðingarnar vegna úttektar séreignarsparnaðar óverulegur eða um 10 millj. kr.

Við gerum ráð fyrir að vera innan við fjárlagaforsendur vegna minna atvinnuleysis a.m.k. fyrstu tvo mánuði ársins og að hluta þann þriðja. Við erum með auknu eftirliti að efla aðhald í atvinnuleysistryggingakerfinu og erum nokkuð bjartsýn á að ná þessum 200 millj. kr. þannig.