138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni, það er full ástæða til að kanna hvort það væri ástæða til að hafa þessi ákvæði til bráðabirgða eða hvort ætti að lögfesta þau. Þá sé ég varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga lítið vandamál fólgið í því nema þá kannski fjármögnun af því að það er tímabundið leyfi til bóta. Sæi hv. þingmaður að hægt væri að lögfesta hlutabæturnar að öllu leyti án þess að hafa þetta í ákvæði til bráðabirgða ef ekki eru tímatakmörk á ákvæðinu? Núna eru ekki tímatakmörk af því að mjög sérstakar aðstæður eru uppi og það er talið samfélagslega mikilvægt að hafa þetta með þessum hætti. Í eðlilegu árferði væri þarna hins vegar ágætistækifæri fyrir atvinnurekendur til að fá ríkissjóð til að niðurgreiða launakostnað í fyrirtækjum þeirra.