138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

atvinnuleysistryggingar og húsaleigubætur.

554. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem hafa reynslu af því að reka fyrirtæki vita að það að hafa fimm starfsmenn í 80% starfi er óskaplega mikil vinna og meiri vinna en að hafa fjóra í 100% starfi. Það þarf að halda utan um hvern einasta mann, borga af honum í sjúkrasjóð, stéttarfélagsgjald, taka af honum skatta o.s.frv., þetta er 20–25% meiri vinna. Þess vegna er enginn hvati hjá fyrirtækjum að hafa marga starfsmenn í hlutastörfum. Það er alröng ályktun. Ég held að fyrirtæki mundu aldrei velja að hafa alla starfsmennina í 80% starfi nema af því að þau væru að gæta hagsmuna starfsmannanna um skemmri tíma og viðhalda þekkingunni í fyrirtækinu líka til skemmri tíma þangað til aftur koma grænir hagar og sól í tún.