138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:21]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ósköp litlu við það að bæta sem ég nefndi áðan. Gildandi lagaákvæði hafa verið túlkuð þannig að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 55/1980 um að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins feli í sér lágmarksviðmið um umsamin kjör á almennum vinnumarkaði, hefur ekki verið talið að samningar um greiðsluskyldu í þessa sjóði falli þar undir, vegna þess að aðrir sjóðir eru taldir upp í þessari tilteknu grein laganna, 1. mgr. 6. gr., ef ég man þetta rétt, ég er ekki með frumvarpið fyrir framan mig. Þar af leiðandi þarf að fella greiðsluskyldu í þessa fræðslusjóði inn í greinina til þess að ljóst sé að greiðsluskyldan, hin umsamda greiðsluskylda falli undir það að teljast lágmarkskjör á vinnumarkaði.