138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er kreppa og vandræði í fjármálum. Iðnaðarmálagjaldið er skattur upp á 300 til 400 milljónir sem ríkið verður að borga til Samtaka iðnaðarins. Það er skylda. Það sama er með búnaðargjaldið, það er svipuð upphæð. Þetta er ekki skert. Þetta er ekki lagt niður. Ónei.

Varðandi það að það sem ég sagði hafi verið óhugnanlegt og að ég væri með alvarlegar athugasemdir, þá mundi ég gjarnan vilja fá umræðu um þessar athugasemdir, alvöruumræðu. Hvernig heldur hv. þingmanni að þeim líði sem er gert sem opinberum starfsmanni að greiða í BSRB og svo er formaður BSRB orðinn þingmaður fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk? (Utanrrh.: Bara vel.) Hvernig heldur hv. þingmanni að honum líði að þurfa að borga félagsgjald til að fjármagna slíkt eða yfirlýsingar um eitt og annað sem hefur pólitískan tilgang? Að borga í einhver félagasamtök sem hafa, eins og ASÍ, mælt með því að Íslandi gangi í Evrópusambandið þó að rökstyðja megi vegna þess hve víðtæk félagaskyldan er, félagsmenn eru um 100.000, að dágóður hluti þeirra og sennilega meiri hluti þeirra sé á móti því að ganga í Evrópusambandið. Þeim er samt gert að borga og fjármagna áróður gegn sinni eigin sannfæringu. Þetta á líka við um Bændasamtökin. Ég get vel skilið það að bónda sem endilega vill ganga í Evrópusambandið, ef hann finnst, frú forseti, líði illa að vita til þess að Bændasamtökin berjist gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Skyldugreiðslur til félaga eiga ekki að vera til.