138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[17:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil einbeita mér að fræðslusjóðunum sjálfum, af því að ég held að mikilvægt sé að hafa í huga að þau fyrirtæki sem standa utan Samtaka atvinnulífsins og önnur fyrirtæki í landinu eiga þeirra sameiginlegu hagsmuna gæta að launafólk á Íslandi hafi tækifæri til endurmenntunar, tækifæri til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og tækifæri til að endurmennta sig í samræmi við þær þjóðfélagsbreytingar sem kalla á breytta þekkingu, færni og kunnáttu í starfi. Þarna er löggjafinn að segja: Öll fyrirtæki á Íslandi eiga að bera ábyrgð á því að launafólk á Íslandi geti endurmenntað sig í samræmi við þarfir samfélagsins. Þarna er verið að krefja öll fyrirtæki um samfélagslega ábyrgð, óháð því í hvaða félag þau hafa ákveðið að skipa sér. (Gripið fram í.)

Við búum við félagafrelsi og ef fólki líkar ekki stefna þess félags sem það er í hverju sinni þá hættir það bara í viðkomandi félagi. (PHB: En borgar samt.) Það er nú samt sem áður þannig að yfir 100 þúsund manns eru í Alþýðusambandi Íslands. Ég þekki (Gripið fram í.) ekki fjölda félagsmanna í Bændasamtökunum. (PHB: Þeim er gert að borga þangað.) Hér hafa líka komið fram fullyrðingar um að þetta séu ólýðræðisleg samtök. Mér finnst það ansi mikið sagt og ég held að við ættum að tala varlega í þeim efnum (PHB: Ég tala ekki varlega í þessum efnum.) og virða félögin til jafns við það sem við sem erum í stjórnmálaflokkum viljum að fólk virði lýðræðislegar stofnanir okkar flokka. Við skulum virða félög sem fólk hefur ákveðið að skipa sér í. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)