138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

556. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki batnaði það. Ég las hér upp úr tilskipuninni og taldi að Eftirlitsstofnun EFTA væri að efast um túlkun Hæstaréttar, hún væri ekki í samræmi, og nú kemur hæstv. ráðherra og segir að Alþingi hafi samþykkt lög sem ekki voru í samræmi við tilskipunina, sem ég reyndar tók líka fram. Ég ætla ekki að ræða um þetta efnislega, því að ég get alveg verið sammála því að fólkið eigi þarna rétt en þetta snýst ekkert um það, þetta snýst um það hver ber ábyrgð á þessum galla. Hvar skyldi frumvarpið hafa verið samið? Auðvitað í ráðuneytinu. Er þá ekki hæstv. ráðherra að vísa ábyrgðinni yfir á sína undirmenn? Ber hann þá ekki ábyrgð á þessu eða forveri hans? (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að skorast undan þeirri ábyrgð að vera hluti af Alþingi og löggjafarvaldinu, þannig að ég verð væntanlega að taka á mig þessa ábyrgð líka. En ég legg nú til að Alþingi taki sjálft að sér samningu allra frumvarpa sem það á að samþykkja og sé ekki að taka við einhverjum frumvörpum úr ráðuneytum sem eru meingölluð að mati hæstv. ráðherra sjálfs.