138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í upphafi máls síns að frumvarpið byggði á skýrslu starfshóps sem hefði verið falið að fjalla um þessi mál. Ég vil byrja á að leiðrétta hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að þegar maður les skýrsluna og frumvarpið er þetta akkúrat á haus. Frumvarpið byggir á ákvörðun ríkisstjórnarinnar, ákvörðun sem var væntanlega tekin í stjórnarmyndunarviðræðum um að Varnarmálastofnun skyldi lögð af, og síðan var starfshópnum falið að leggja niður stofnunina og koma þessum verkefnum einhvers staðar fyrir án þess að þessi stofnun kæmi við sögu. Ég held að stofnunin hljóti dauðadóm sinn fyrst og síðast vegna þess að hún er svo óheppin að forskeytið varnar- er í titli hennar. Það er samt önnur saga.

Mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég get alveg tekið undir margt í skýrslu nefndarinnar, þar á meðal að það er brýnt að sameina mörg þessara verkefna. Ég er algjörlega hlynnt þeirri áherslu að starfsemi Landhelgisgæslunnar eigi mjög vel heima með Varnarmálastofnun og þeim verkefnum sem þar er unnið að en ég get bara ekki séð hvernig þetta verklag á að geta gengið upp.

Það er byrjað á því að leggja stofnunina niður, taka verkefni hennar og dreifa þeim um allt stjórnkerfið. Síðan einhvern tímann fyrir lok kjörtímabilsins á að stofna nýtt ráðuneyti — einhvern tímann, það stendur ekki hvenær það er — þannig að í millitíðinni á að starfa einhver breytingastjóri. Hvaða rugl er þetta? Af hverju er ekki bara byrjað á byrjuninni? Af hverju er ekki byrjað á því að skilgreina hvaða verkefni eiga heima hvar og þá þær stofnanir og þau ráðuneyti sem (Forseti hringir.) þannig munu starfa og síðan leggja niður stofnanir og færa verkefni þangað? Þetta (Forseti hringir.) er allt saman ein hringavitleysa, frú forseti.