138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Án þess að ég vilji fara í eitthvert skæklatog finnst mér auðvitað fróðlegt að hv. þingmaður skuli kalla það hringavitleysu sem lagt er til hér og er í fullu samræmi við það sem helstu talsmenn Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum hafa sagt síðustu þrjú árin.

Svo vil ég leiðrétta þann misskilning, frú forseti, hjá hv. þingmanni að hlutirnir hafi verið settir á haus, þ.e. að ég hafi haldið því fram að frumvarpið spretti upp úr skýrslunni án þess að eiga sér einhvern annan uppruna.

Með leyfi forseta vil ég aftur lesa hér næstfyrstu málsgreinina í ræðu minni, svohljóðandi:

„Starfshópnum var m.a. falið að gera tillögur um hvernig mætti framfylgja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Varnarmálastofnun.“

Það er með engu móti hægt að halda því fram, eins og ég las út úr máli hv. þingmanns, að hér væri að einhverju leyti siglt undir fölsku flaggi. Það liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að leggja stofnunina niður. Síðan var settur á stofn starfshópur þeirra ráðuneyta sem málið varðar til að að skilgreina og finna leiðir um með hvaða hætti ætti að finna starfsþáttum stofnunarinnar stað hjá þeim stofnunum, borgaralegum að eðli til, sem skyldastar eru. Sömuleiðis var starfshópnum lagt það fyrir að hafa sem skýrt sjónarmið að ætlunin væri að sameina tvö ráðuneyti og innan þeirra að búa til borgaralega öryggisstofnun, grundvallaða á borgaralegum gildum. Það eru ábyggilega setningar sem hljóma kunnuglega fyrir hv. þingmann.