138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það glittir ekki einu sinni í sannfæringuna hjá hæstv. utanríkisráðherra þegar hann reynir að klóra sig út úr þessu. Það er alveg kýrskýrt hvað er að gerast. Það er verið að leggja niður Varnarmálastofnun af því að hún fer í taugarnar á Vinstri grænum. Gott og vel, gerum það þá. En þetta er gert með þeim hætti að ég er hrædd um hvernig okkur muni takast að standa við skuldbindingar okkar. Það er mjög fróðlegt að mestur hluti ræðu hæstv. ráðherra fór í að tala um hvað sjálfstæðismenn hefðu sagt í umræðunni. Það er ekki verið að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins með þessu frumvarpi. Það get ég fullvissað hæstv. utanríkisráðherra um og jafnvel þótt þú getir verið sammála, eins og ég sagði áðan, þá er fullt af tækifærum til að sameina verkefni. Mér finnst mjög ánægjulegt að starfshópurinn (Forseti hringir.) telur staðsetningu Varnarmálastofnunar meðal lykilatriða í fyrri samningum. Ég sem Keflvíkingur og þingmaður (Forseti hringir.) Suðurkjördæmis fagna þessu og hlakka til að sjá (Forseti hringir.) það vonandi verða að veruleika.