138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér vannst ekki tími til í fyrra andsvari mínu að þakka hv. þingmanni fyrir þá áherslu sam hún lagði á ákveðna þætti sem hún taldi vera að finna í skýrslunni. Það kom einnig fram í andsvari hennar hinu síðara að margt jákvætt er í þessu og hv. þingmaður segir að hægt sé að finna marga möguleika til að auka samvinnu og samhæfingu á milli stofnana. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. Ég er einnig algerlega sammála hv. þingmanni um og hef lýst því mörgum sinnum yfir að það eigi einmitt að flytja ákveðna starfsemi sem þessu tengist til Keflavíkur og í því felist margvíslegt hagræði, nýting á aðstöðu sem er fyrir hendi og ekki spillir heldur fyrir að það mun hjálpa Suðurnesjunum í þeirri stöðu sem þau eru í núna.