138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kom aðeins inn á gagnrýni mína á þetta mál í andsvari við hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að mér þykir margt við þetta mál ansi undarlegt. Ég ætla þó að byrja á að vera jákvæð, ég skal byrja á að fara yfir þá þætti sem ég tel jákvæða í þessu og beina svo sjónum mínum að þeim hlutum sem ég tel gagnrýniverða.

Ég tel hugmyndina um innanríkisráðuneytið sem fer samhæft yfir öryggis- og varnarmál, hvort sem það er borgaralegt eða með tilliti til skuldbindinga okkar vegna aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu, ágæta og hef stutt hana. Ég er líka sammála niðurstöðum skýrsluhöfunda um að við eigum mikið inni í því að sameina verkefni — ég nefndi það áðan — Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Einnig er talað um ríkislögreglustjóra í þeim efnum. Þetta tel ég sjálfsagt, ekki bara í ljósi þess að við eigum sérstaklega núna að horfa í hverja einustu krónu sem við verjum af opinberu fé heldur einnig vegna þess að það er skynsamlegt upp á að tryggja að þessi verkefni verði sem best innt af hendi og að öryggi borgaranna, sem þetta snýst allt um, verði tryggt. Við spyrjum ekki að því á hættutíma hvort öryggi okkar stafi ógn af einhverju sem fellur undir mismunandi skilgreiningar á hernaði eða borgaralegri áhættu. Ég held ekki að hryðjuverkamenn setji sig endilega inn í þær skilgreiningar. Þetta finnst mér ágætt og mér finnst ágætt að þessi vinna sé sett á fót.

Hins vegar er þessu öllu snúið á haus eins og ég sagði áðan. Maður sér alveg fyrir sér hvernig atburðarásin hefur verið. Um þetta hefur verið samið milli flokkanna. Vinstri grænir fengu að leggja niður Varnarmálastofnun í staðinn fyrir að samþykkja aðildarviðræður að Evrópusambandinu og svo var þessum starfshópi falið að útfæra hugmyndina. Þetta gengur ekki upp. Hvernig á að vera eins og harmonikka að þvæla hlutum fram og til baka? Það er alveg augljóst að á einhverjum tímapunkti mun eitthvað falla á milli laga og ég vona að okkur takist að koma í veg fyrir þessa vitleysu.

Ég ætla aðeins að ræða þetta almennt áður en ég fer í einstakar greinar. Eins og ég sagði áðan, og ég ítreka það hér, finnst mér áhersla nefndarinnar þegar hún ræðir um hvernig hægt er að samþætta og flytja verkefni Gæslunnar — ég ætla að halda áfram að tala um Varnarmálastofnun bara til einföldunar vegna þess að það eru þessi verkefni sem ég á við — alltaf á mikilvægi aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli, hvort sem verið er að ræða um stjórnstöðina varðandi radarinn eða starfsemi Gæslunnar að öðru leyti. Aðstaðan þar er til fyrirmyndar og ég fagna því.

Hvað er ég þá að gagnrýna? Mér finnst undirbúningurinn að þessu máli og stjórnsýslulegu vinnubrögðin í miklu skötulíki. Hæstv. ráðherra talaði um nauðsyn samráðs og að hann ætlaði að beita sér fyrir breiðu þverpólitísku samráði um þessi mál. Ég hlýt að spyrja: Hvar er þetta þverpólitíska samráð sem hæstv. ráðherra hefur verið að tala um og er líka nefnt í frumvarpinu? Ég minnist þess ekki að við í stjórnarandstöðunni höfum verið kölluð til í því samráði. Við höfum ákveðnar skuldbindingar gagnvart Atlantshafsbandalaginu sem við höfum tekið okkur á hendur með aðild okkar þar. Sama hversu ítrekað ráðherra endurtekur þetta í ræðu sinni leyfi ég mér að efast um að búið sé að hugsa fyrir þessu í þessari vinnu allri saman. Ég get ekki séð að það sé búið að hugsa fyrir því hvar þetta á allt saman að lenda. Mér finnst verið að færa þetta hingað og þangað án þess að nokkur heildarhugsun sé í því.

Af hverju er t.d. ekki byrjað á að mynda þetta innanríkisráðuneyti? Af hverju er ekki byrjað að taka á öllum þeim fjölmörgu álitamálum sem þarf að fara í gegnum þar áður en verkefnunum er þvælt á milli ráðuneyta? Á bls. 20 í skýrslunni segir t.d., með leyfi forseta:

„Til að unnt sé að samþætta verkefni Varnarmálastofnunar við áform um stofnun innanríkisráðuneytis með skipulegum hætti og til að tryggja að óhjákvæmilegt millibilsástand vari sem styst telur starfshópurinn brýnt að sameining hlutaðeigandi ráðuneyta verði nánar tímasett og undirbúningur hafinn að stofnsetningu innanríkisráðuneytis til hliðar við þann feril sem starfshópurinn sér fyrir sér um ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar. Starfshópurinn telur að heppilegast væri að geta stillt ráðstöfun verkefna af við mögulega endurskipulagningu undirstofnana innanríkisráðuneytis.“

Ég hlýt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er þetta hafið? Er undirbúningur þess hafinn? Eins og fram hefur komið stendur ekkert um það annað en að það eigi að gerast fyrir lok kjörtímabilsins og við vitum að slíkt tekur langan tíma. Ég hlýt þá líka að spyrja næstu spurningar vegna þess að það liggur fyrir að um sameiningu annarra ráðuneyta hefur ekki alltaf verið samkomulag í ríkisstjórn: Eru ríkisstjórnarflokkarnir báðir sammála um að það verklag skuli viðhaft að þessi tvö ráðuneyti verði sameinuð?

Hæstv. ráðherra talaði mikið um að það hefði komið skýrt fram í heimsókn nefndarinnar til höfuðstöðva NATO að menn væru þar sáttir við þessar breytingar. Mér finnst hins vegar skína í gegn í skýrslunni áhyggjur og varnaðarorð bandalagsins til íslenskra stjórnvalda. Það hvetur til þess að þessari óvissu sé eytt og segir t.d. á bls. 9 í skýrslunni:

„Fulltrúar herstjórnarinnar kváðust vona að fyrirhugaðar breytingar íslenskrar stjórnsýslu á fyrirkomulagi varnartengdra verkefna mundu ekki raska framkvæmd þeirra að umfangi sem byggðust á sameiginlegu mati Atlantshafsbandalagsins og íslenskra stjórnvalda.“

Mér finnst þetta ekki algjör traustsyfirlýsing við áform hæstv. utanríkisráðherra. Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Fulltrúar herstjórnarinnar lögðu ríka áherslu á nauðsyn þess að ábyrgð á varnartengdum verkefnum héldi áfram að vera skýr og samhæfð og að viðeigandi samstarfsaðili fyrir Atlantshafsbandalagið héldi áfram að vera til staðar í íslenska stjórnkerfinu.“

Og þeir lýstu sig reiðubúna til samstarfs. Ég segi aftur að mér finnst þetta vera frekar varnaðarorð en stuðningsyfirlýsing við hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom aðeins inn á kostnaðinn. Það er eiginlega hreint með ólíkindum að lesa kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er verið að bregðast við þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja Varnarmálastofnun niður“ þannig að fjármálaráðuneytið les þetta á sama hátt og ég, ekki svo að frumvarpið sé skrifað til að framfylgja niðurstöðu starfshópsins. Síðan segir hér það sem áður hefur komið fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, með leyfi forseta, að ekki liggi fyrir „áætlanir um hversu mikið mun sparast til lengri tíma í útgjöldum ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að hagræðið verði umtalsvert“.

Mér þætti vænt um að fá nánari skilgreiningu hjá hæstv. ráðherra á orðinu umtalsvert. Hvað hefur fjármálaráðuneytið fyrir sér í því? Hljótum við ekki að þurfa að kalla eftir nákvæmri kostnaðaráætlun og kostnaðarmati áður en við leggjum í allt þetta bras?

Síðan segir líka:

„Verði frumvarpið lögfest má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist óverulega á þessu ári vegna biðlauna og mögulegs kostnaðar við verkefnastjórn. Væntanlegrar hagræðingar mun hins vegar þegar fara að gæta“ o.s.frv. Ég spyr um þennan biðlaunarétt. Manni dettur strax í hug forstjórinn. Forstjórinn var væntanlega skipaður til fimm ára þegar stofnunin tók til starfa árið 2008. Nú er 2010. Það á að segja forstjóranum upp við gildistöku laganna. Hvað þýðir þetta í kostnað, hverjar eru skuldbindingar ríkisins gagnvart þessum fimm ára samningi sem forstjórinn hefur væntanlega? Þá kemur næsta spurning: Hvaðan kemur breytingastjórinn sem á að ráða? Hvaða kostnaður fylgir honum? Hvaða kostnaður fylgir þessum samráðshópi sem á að reka stofnunina? Þá kannski liggur beinast við að spyrja: Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að semja við forstjóra stofnunarinnar um að taka að sér hlutverk breytingastjóra? Forstjórinn hlýtur að hafa ágætisyfirsýn yfir það hvað er að gerast í þessari stofnun og hlýtur að geta unnið eftir þeim fyrirmælum sem hún fær frá yfirmönnum sínum í ráðuneytinu um það hvernig eigi að koma breytingunum á. Stefnan er mörkuð pólitískt og embættismenn fara eftir þeirri stefnumótun. Það er engin ástæða til að ætla að þessi forstjóri geti það ekki líka þannig að það er alveg með ólíkindum að sjá að forstjóranum skuli sagt upp alveg í hvelli en svo þurfi að ráða fleiri.

Á bls. 24 í skýrslunni er langur listi af ráðstöfunum verkefna yfir allt aðlögunarferlið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á meðan ákvarðanir um mögulega endurskipulagningu undirstofnana hins áformaða innanríkisráðuneytis liggja ekki fyrir og með hliðsjón af því að stofnun ráðuneytisins hefur ekki verið tímasett telur starfshópurinn að miða beri ráðstöfun verkefna Varnarmálastofnunar við eftirfarandi“ og þá er Landhelgisgæslunni falið eitt og annað, ríkislögreglustjóra falið eitt og annað, fasteignum ríkissjóðs og allt þetta. Hvað kostar það þessar stofnanir að fara núna í þá vinnu að yfirtaka öll þessi verkefni? Landhelgisgæslan sem hefur glímt við mikinn fjárskort hefur nóg með sig, ég tala nú ekki um núna þegar við erum með stórt verkefni í höndunum sem eru náttúruhamfarir á Suðurlandi. Hvað þurfa margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar að fara að vinna við þessa svokölluðu breytingastjórnun? Mér þætti gaman að vita það.

Svo er annað athyglisvert á bls. 16. Þar er ekki alveg samræmi í áformum þessarar ágætu ríkisstjórnar frekar en fyrri daginn. Á bls. 15 er talið upp að tiltekið sé meðal þess sem er getið í áformum ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu, samanber kafla 3.3 í frumvarpi til fjárlaga 2010 og þar er talað um endurskipulagningu lögregluembætta sem miðar að því að verja grunnþjónustu lögreglunnar og minnka yfirbyggingu. Svo kemur setningin:

„Skoðað verður hvort leggja skuli niður embætti ríkislögreglustjóra og endurskipuleggja og flytja til verkefni með skilvirkni og hagræðingu í huga.“

Gott og vel, þetta stendur í fjárlögunum. Síðar á þessari sömu bls. 16 er sem sagt talað um að það sé mat starfshópsins að tvær opinberar stofnanir séu vegna fyrirliggjandi verkefna sinna, eðlis og uppbyggingar best til þess fallnar að taka að sér ábyrgð og fyrirsvar á verkefnum Varnarmálastofnunar — og það eru Landhelgisgæsla Íslands og embætti ríkislögreglustjóra sem átti að leggja niður í hagræðingarskyni rétt áðan.

Þetta sýnir , frú forseti, að það er akkúrat engin hugsun í þessu nema ein — og það er sú hugsun að Vinstri grænir fái loksins í gegn að þeir geti í sínu baklandi bent á að þeir hafi fengið eitthvað í staðinn fyrir ESB-umsóknina. Þetta er svo áberandi að maður fær kjánahroll niður eftir bakinu. Maður á ekki að gera það vegna þess að þetta er háalvarlegt mál og við skulum öll leggjast í það sameiginlega verkefni að nýta opinbert fjármagn sem best. Við skulum öll leggjast í það sameiginlega verkefni að búa öryggis- og varnarmálum Íslands sem besta umgjörð fyrir sem minnstan pening. Ég tek undir þó það markmið sem er sett fram að tryggja að skuldbindingar okkar (Forseti hringir.) gagnvart Atlantshafsbandalaginu séu tryggðar (Forseti hringir.) en ég verð að segja að þetta frumvarp gerir mig ekki örugga um að svo verði. (Forseti hringir.)

Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá, frú forseti.