138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[18:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eftir atvikum vil ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir gagnvart kjarna frumvarpsins. Ef ég eima það sem hv. þingmaður segir er það í reynd eftirfarandi: Hv. þingmaður lýsir stuðningi við mörg meginmarkmið frumvarpsins en það eina sem hún færir fram gegn því að það verði samþykkt núna er að ekki skuli vera búið að ákveða og samþykkja stofnun innanríkisráðuneytis. Ég get þá huggað hv. þingmann með því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að flýta því ákaflega og mjög. Hv. þingmaður varpaði til mín tveimur spurningum sem varðar það. Hún spurði hvort hafinn væri undirbúningur að stofnun innanríkisráðuneytisins. Nú veit ég vel að það er ábyggilega mikið að gera hjá hv. þingmanni og hún fylgist kannski ekki mjög mikið með öðrum flokkum og örugglega ekki ríkisstjórninni heldur en á fyrsta degi þessarar ríkisstjórnar var greint frá því að fyrirhugað væri að stofna innanríkisráðuneyti úr tveimur núverandi ráðuneytum fyrir lok kjörtímabilsins.

Fyrir þremur vikum flutti hæstv. forsætisráðherra ræðu þar sem hún lýsti því yfir að hún vildi helst gera það fyrir lok þessa árs. Hv. þingmaður mundi, ef hún hefði fylgst með fyrstu skrefum ríkisstjórnarinnar, vita að þessi stefnuyfirlýsing var samþykkt af hálfu þeirra tveggja flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn. Þar af leiðir er svarið við þeirri spurningu um það hvort sammæli sé um stofnun þess millum stjórnarflokkanna tveggja: Já. Þannig liggur í því.

Að öðru leyti, frú forseti, ætla ég ekki að svara fyrir allt það sem segir í skýrslunni. Hv. þingmaður og flokkarnir eftir atvikum geta fengið allar þær yfirferðir sem þeir vilja um smæstu smáatriði skýrslunnar í hv. utanríkismálanefnd. Hv þingmaður sagði að hún teldi að ekki yrði staðið við alþjóðlegar skuldbindingar á grundvelli þessa frumvarps. Mig langar til að spyrja hana (Forseti hringir.) af því að hún hefur greinilega kynnt sér málið vel: Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar telur hún að ekki verði hægt (Forseti hringir.) að standa við að frumvarpinu samþykktu?