138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég hv. þingmanni að reyna að hártoga þetta viljandi. Það er hugsanlegt að í þeirri grein sem hv. þingmaður las upp sé einhver misskilningur fólginn af hennar hálfu. Hún á hugsanlega við — ég veit það ekki — hvort sá möguleiki sé uppi að einhverjum verkefnum verði ekki ráðstafað eftir 1. janúar 2011 og er þá e.t.v. að spyrja hvað verði um rétt þeirra starfsmanna.

Í frumvarpinu kemur algjörlega skýrt fram að gert er ráð fyrir því að öllum verkefnum sem er að finna hjá stofnuninni verði ráðstafað fyrir þann tíma. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að það verður lagaskylda að bjóða starfsmönnum starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkþáttunum. Þetta er a.m.k. mjög einlægur vilji ráðherrans og ef hv. þingmaður telur einhverja meinbugi á því að sá vilji sé tjáður með réttum hætti í frumvarpinu treysti ég henni og öðrum þeim sem kunna um málið að véla í hv. utanríkismálanefnd til að breyta því. Ég held að svo sé ekki, ég held að það sé algjörlega, eins og ég sagði í minni fyrstu ræðu, í gadda slegið.

Hv. þingmaður spyr þá: Kann að vera að einhver verkefni verði niðurfelld og að þar með tapi starfsmenn vinnu sinni? Hér fyrr í umræðunni var vísað til orða sem ég lét falla í fréttaviðtali fyrir einu eða tveimur árum. Til þess að taka af allan vafa þá sagði ég í niðurlagi ræðu minnar að ég hygðist á komandi hausti leita eftir pólitísku samráði við stjórnmálaflokkana um það að móta nýja öryggisstefnu sem miðast við þá þróun sem orðið hefur í heiminum. Ég ætla að leita eftir því að fulltrúar allra stjórnmálaflokka komi að því. Þeir munu véla um þessi verkefni og hugsanlegt er að þeir komist að því að einhverjum þessara verkefna sé ofaukið.

Til dæmis situr hér beint á móti mér þingmaður sem telur að verkefni séu hjá Varnarmálastofnun sem sé ofaukið (Forseti hringir.) og hann hefur tjáð það mörgum sinnum hér á Alþingi Íslendinga.