138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessi lokaathugasemd kallast víst að kasta steinum úr glerhúsi í sambandi við málefnalega umræðu. (Gripið fram í.) Ég tek hins vegar algjörlega undir það að þetta er eitthvað sem framsóknarmenn munu fara vel yfir og ég fagna því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ítreki það sem varaformaður utanríkismálanefndar að hún ætli sér að fara vel yfir þær grundvallarspurningar sem ég spurði í ræðu minni, því að þessi stofnun er mjög mikilvæg, verkefnin sem hún sinnir eru mjög mikilvæg. Ef við ætlum að ná þeim árangri sem við erum að tala um, að ná að hagræða í rekstri ríkisins, þá verðum við náttúrlega að hafa skýra hugmynd um hvernig við ætlum að gera það. Það gerist ekkert bara af því að við segjumst ætla að gera þetta heldur verðum við að leggja nákvæmlega upp hver markmiðin eru.

Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður íhugi líka vel og ræði innan síns flokks hvort ekki sé skynsamlegt að fara í pólitísku stefnumörkunina sem ráðherrann hefur talað um áður en þetta frumvarp verður klárað á Alþingi.