138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[19:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að á sínum tíma hafi verið svolítið vitlaust gefið þegar Varnarmálastofnun og þeirri starfsemi sem henni fylgir var komið á laggirnar. Eðlilegt hefði verið að vinna ítarlegri stefnumörkun fyrir öryggismál Íslands almennt séð út frá því grundvallaratriði að við erum þátttakendur í varnarbandalagi með öðrum þjóðum og byggja stefnu okkar á því. Á sínum tíma var unnin áhættumatsskýrsla sem hefði getað verið grunnurinn að slíkri stefnumörkunarvinnu í samvinnu við NATO og vinaþjóðir okkar og út frá þeirri niðurstöðu hefði verið hægt að velja verkefnin sem hér þyrfti að sinna. Ég tel mjög mikilvægt að slík stefnumörkun sé unnin á vegum þingsins en ekki eingöngu á vegum embættismanna og ráðuneyta. Hlutverk þjóðþingsins er mjög mikilvægt af því að hér er um algert grundvallaratriði að ræða.

Þessi áhættumatsskýrsla sem ég nefni leiddi það fram að hernaðarógn er nánast engin. Það er mat þeirra sem um þessi mál fjalla, það er mat þeirra sem ég heyrði tala í heimsókn minni til NATO og miklu fleiri sem hafa vit á þessum málum og í ljósi þess hefði kannski verið eðlilegt að vinna að stefnumörkunum. Reyndar kemur fram í skýrslu sem unnin var af vinnuhópi utanríkisráðuneytisins með þessu frumvarpi að NATO telji rekstur íslenska loftvarnakerfisins mjög nauðsynlegan og órjúfanlegan hluta af neti NATO og því beri að leggja áherslu á að það verði áfram í rekstri. Þess ber þó að gæta að þegar varnarliðið hvarf af landi brott á sínum tíma og við gerðum varnarsamning við Bandaríkin þá töldu þeir sig ekki þurfa merki frá íslenska ratsjárkerfinu eða íslenska loftvarnakerfinu til að uppfylla þann varnarsamning gagnvart okkur. Ég hef haft miklar efasemdir um þennan rekstur eins og hann hefur verið settur upp og það liggur algerlega fyrir og hefur verið sýnt fram á það í úttektum að einfaldari leiðir með vöktun þessa kerfis og nýtingu kerfisins eru fyrir hendi. Hjá vinaþjóðum okkar í Bretlandi, Danmörku og Noregi eru stöðvar sem taka á móti merkjum frá sambærilegum ratsjárstöðvum og vinna úr þeim sendingar allan sólarhringinn þannig að sú vinna gæti hæglega farið fram á þeim vettvangi, gæti verið flutt héðan og hér væri í raun algert lágmarkseftirlit í gangi þó að rekstri loftvarnakerfisins væri haldið áfram. Rekstur er nefnilega eitt og greiningarvinna annað.

Ég hef einnig haft miklar efasemdir um annan fylgifisk þessa samstarfs sem er þetta svokallaða loftrýmiseftirlit sem ég tel algerlega tilgangslaust, sérstaklega í ljósi áhættumatsskýrslunnar sem ég nefndi þar sem fram kemur að hernaðarógn er hér engin. Kostnaður er gríðarlega mikill og að hluta til greiddur af okkur en kannski að stærri hluta af þeim þjóðum sem hingað koma, en fjármunum er engu að síður eytt í þetta verkefni sem mætti kannski frekar verja í eitthvað annað. Í ljósi þess tel ég að í raun væri eðlilegt að við hefðum viðræður við vinaþjóðir okkar, þjóðir innan NATO, um það hvernig best væri að koma að þessu, hvernig þessum málum væri best hagað og hvernig hægt væri að nýta það fjármagn sem úr er að spila með sem bestum hætti og það væri hluti af þeirri öryggisstefnu sem þarf að vinna. Þar koma þá inn samþættingar á borgaralegri starfsemi sem við höfum hér og varða öryggismál og mögulega hernaðarstarfsemi. Í skýrslu Stjórnarráðsins um öryggismál og endurskipulagningu, sem ég vitna til, kemur fram að það sé mat þeirra hjá NATO að samþætting verkefna Varnarmálastofnunar við aðrar borgaralegar stofnanir geti átt sér stað, einnig kemur fram að til að slík samþætting og samlegð náist að fullu fram hnígi rök til þess að flytja þessa borgaralegu starfsemi á núverandi starfssvæði Varnarmálastofnunar.

Þegar ég glugga í þessa skýrslu, sem mig langar til að gera aðeins að umtalsefni, þá vekur það athygli að nefndin sem hana vinnur heimsótti flesta þá aðila sem að málum koma en þó ekki alla. Hún heimsótti bæði aðila hjá NATO og stofnanir innan lands en hún heimsótti t.d. hvorki Neyðarlínuna sem rekur Vaktstöð siglinga né Slysavarnafélagið Landsbjörg sem gegnir veigamiklu hlutverki í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð. Nefndin talaði ekki við stjórn samhæfingarstöðvarinnar sem þó er verulega komið inn á í þessari skýrslu og ljóst er að ef farið verður að þeim tillögum sem þar eru lagðar fram um flutning hluta af starfseminni suður til Keflavíkur verður veruleg röskun á starfsemi samhæfingarstöðvarinnar eða björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð.

Það var árið 2003 sem við stigum fyrstu skrefin í því að koma af stað þessari samhæfingarstöð í Skógarhlíð fyrir alla björgunar- og viðbragðsaðila og það tókst eftir nokkurn tíma. Ég held að það hafi verið árið 2005 sem Landhelgisgæslan kom inn í þessa stöð, síðust viðbragðsaðila eða -stofnana. Áður þjónuðu sjö stjórnstöðvar víðs vegar um bæinn þessari starfsemi. Þetta gekk ekki átakalaust og má segja að líka hafi verið vitlaust gefið að hluta til vegna þess að þarna var farið af stað í uppbyggingu á starfsemi þar sem húsið var eiginlega byggt jafnhliða utan um starfsemina í stað þess að taka fyrst ákvörðun um sameininguna og velja henni síðan staðsetningu og þá í hentugra húsnæði. En þetta gekk þessa leið og fram hjá því verður ekki horft að reynslan af starfsemi samhæfingarstöðvarinnar, sem allir viðbragðsaðilar eiga aðkomu að, er mjög góð og nánast um einsdæmi að ræða á meðal þjóða hvernig samstarf hefur tekist á milli mismunandi aðila sem sinna björgunar- og öryggisþjónustu í landinu. Fulltrúar margra þjóða hafa komið til landsins til að kynna sér þessa starfsemi sérstaklega og lokið á hana lofsorði og margir talið nánast útilokað að þetta væri hægt í heimalandi þeirra vegna togstreitu sem gjarnan er á milli stofnana. En við komumst yfir þá togstreitu og samstarf aðila í þessari samhæfingarstöð hefur verið að slípast á þessum tíma og reynslan er gríðarlega góð. Um það held ég að engum blöðum sé að fletta.

Rekja má mistök í björgunarsögu okkar Íslendinga til þess að við vorum áður með stjórnstöðvar á fleiri stöðum. Þannig geta upplýsingar misfarist og boðleiðir verið lengri þannig að þjónustan, verkefnið, verður alls ekki eins skilvirkt og við þær aðstæður sem við búum núna. Á undanförnum dögum hafa margir þingmenn farið í ræðustól og lokið lofsorði á það samstarf og þá vinnu sem vel hefur tekist í kringum eldgosin á Suðurlandi. Þetta upplifðum við líka í jarðskjálftanum á Suðurlandi og þetta upplifum við meira og minna í nánast hverjum einasta mánuði þegar aðgerðum er stjórnað úr þessari samhæfingarstöð. Mjög mikilvægt er að aðilar í stjórnsýslunni geri sér grein fyrir því að lykillinn að því hversu vel hefur tekist til í þessu er samhæfingarstöðin. Því er verulegt áhyggjuefni þegar segir í þessari skýrslu að samþætting verkefna Varnarmálastofnunar, verkefna Landhelgisgæslu og Vaktstöðvar siglinga skapi þannig möguleika á því að heildstæð stöðumynd af allri þekktri umferð umhverfis landið, hvort sem er á lofti eða á legi, verði á einum stað hjá borgaralegum viðbragðs- og vöktunaraðila. Til að það megi ganga eftir virðist ljóst að flytja verður a.m.k. hluta af Vaktstöð siglinga og þar með stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í þá sérútbúnu aðgerðastjórnstöð sem Varnarmálastofnun býr yfir í dag en sú aðstaða og starfræksla hennar virðist forsenda þess að upplýsingar úr kerfum NATO berist íslenskum stjórnvöldum. Sú breyting mun í raun hafa það í för með sér að sú starfsemi sem við erum með í dag í Skógarhlíðinni verður lögð af í núverandi mynd. Þetta er eitthvað sem þarf að vanda miklu betur. Þetta þarf að skoða miklu betur og ég sem formaður stjórnar þessarar samhæfingarstöðvar er að undirbúa kynningu, reyndar hefði þegar verið boðið upp á hana ef þessi stóratburður væri ekki í gangi, fyrir ráðherra þeirra málaflokka sem hér er fjallað um þannig að menn séu vel meðvitaðir um hvað fer þarna fram og hvaða hættu það gæti haft í för með sér með að skipta þessu upp aftur. Við verðum að standa vörð um það sem vel hefur tekist til með þó að við förum í ákveðnar breytingar.

Vissulega er möguleiki á því að flytja ákveðna starfsemi suður á Keflavíkurflugvöll og aðstaðan þar er að mörgu leyti glæsileg, en það hefur annmarka í för með sér að gera það. Ég vann fyrir þáverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason árið 2007 þegar við skoðuðum þennan möguleika mjög ítarlega. Því mundi fylgja verulegur kostnaður, bæði er auðvitað gríðarlega dýrt að framkvæma þetta og þá er ég að tala um það að flytja alla starfsemi Skógarhlíðarinnar suður til Keflavíkur. Það er gríðarlega dýrt að stíga það skref og það mun einnig verða stofnunum mjög dýrt, sérstaklega fyrstu árin Til að mynda mun þetta þýða það að ef Landhelgisgæslan ætlar að halda þeim viðbragðstíma sem við setjum okkur í fyrsta útkalli á þyrlu þyrftu bakvaktir áhafnar hreinlega að gista suður í Keflavík eða búa þar (Gripið fram í.) þannig að bara í þessu eina atriði liggur verulegur kostnaðarauki. Hér erum við með dæmi sem þarf að skoða mjög vel. Ég er í grundvallaratriðum sammála því og í raun bara ánægður með það að við skulum vera að endurskoða starfsemi Varnarmálastofnunar. Ég tel eins og ég sagði áðan hafa verið vitlaust gefið í upphafi. Ég held að við þurfum að hefja viðræður við bandalagsþjóðir okkar um það hvernig við viljum haga þessum málum í framtíðinni, hvernig við getum nýtt það fé sem er til umráða með sem bestum hætti. Ég bendi t.d. á einn möguleika. Hér er verið að kosta hundruðum milljóna í það að senda hingað herþotur á hverju ári til tilgangslausra æfinga á meðan Landhelgisgæslan býr við mjög takmarkaðan þyrlukost og öryggismálin eru þannig skert. Landhelgisgæslan á í góðu samstarfi við Dani sem þeir haga sinni starfsemi í kringum hvar þeir eru með varðskip og þyrlur á hverjum tíma. Af hverju getum við ekki samið við þessar þjóðir um að þær leggi frekar þetta fjármagn til að leggja okkur til jafnvel skip og björgunarþyrlur á ákveðnum tímum sem passa þá inn í viðhaldsprógramm hjá Landhelgisgæslunni? Þetta þarf allt að skoða af mikilli yfirvegun og grundvallaratriðið má aldrei vera það að með slíkum breytingum séum við að stíga skref aftur á bak í einhverjum þáttum sem menn eru sammála um að hafi mjög vel tekist til í og við erum í raun alveg í fararbroddi með.