138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hæstv. ráðherra erum um margt sammála í þessu. Ég held að þetta sé kannski grundvallaratriði sem við erum að tala um. Hér hefur farið fram mikil vinna sem í raun getur lagt grunninn að því að menn fari yfir öryggis- og varnarstefnu landsins. Slíkt mál þarf að vinna á vegum þingsins og í nánu samstarfi við bandalagsþjóðir okkar vegna þess að í mínum huga er alveg skýrt að við ætlum að vera áfram samstarfsaðilar á vettvangi NATO. Ég tel það algjört grundvallaratriði.

Vissulega hræðist ég það að hæstv. ráðherra skuli vera í ríkisstjórn með þeim flokki sem hann er með þegar þarf að taka þessi mál til umfjöllunar vegna þess að við vitum hvaða hugmyndir hafa ráðið þar innan dyra. Það er hætta á að ákveðin öfl á þeim vettvangi noti tækifærið og reyni að draga eitthvað úr mikilvægi þess að vera fullir þátttakendur í varnarbandalagi á vegum NATO.

Að því leyti ættum við að flýta okkur hægt. Við ættum að gaumgæfa mjög vel þetta mál og ég legg á það ríka áherslu að menn ógni ekki að neinu leyti því sem ég kom inn á áðan, Samræmingarstöðinni í Skógarhlíð. Það er ekkert sem segir að hana megi ekki flytja eitthvert í framtíðinni eða laga starfsemi hennar til. Öll starfsemi getur verið breytingum háð en í grundvallaratriðum hefur þetta gengið mjög vel og þetta má ekki sundurskilja (Forseti hringir.) þar sem það er komið saman.