138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en þó ætla ég að nota þessar fimm mínútur sem ég hef í minni seinni ræðu. Ég vil byrja á að taka undir hvatningu hv. þm. Jóns Gunnarssonar til hæstv. ráðherra um að við eigum að flýta okkur hægt í þessu. Ég vil bæta við þá hvatningu að við eigum að gæta okkar að byrja á réttum enda og vísa ég þá í þær athugasemdir sem ég gerði í minni fyrri ræðu.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að tæpa á, atriði sem ég vona að ég hafi tækifæri til að reifa í utanríkismálanefnd þar sem ég kem stöku sinnum og reyni að hafa áhrif á vinnu þessa frumvarps. Ég vil fyrst víkja að því sem hv. þm. Eygló Harðardóttir ræddi aðeins áðan, óljósri verkaskiptingu á milli þeirra ráðuneyta sem hér um ræðir, utanríkisráðuneytisins annars vegar og dómsmálaráðuneytisins hins vegar. Ég vísa í skýrslu starfshópsins á bls. 13 og 14 þar sem er fjallað um þá tillögu að verkaskiptingu sem starfshópnum er ætlað að gera sem tekur mið af flutningi ábyrgðar frá utanríkisráðuneyti til innanríkisráðuneytis. Ég verð að segja að mér finnst slegið dálítið úr og í í umfjölluninni, annars vegar er því haldið fram að utanríkisráðuneytið fari eðlilega með fyrirsvar fyrir samskipti okkar við erlend ríki en síðan ætla ég að vitna í skýrsluna. Á bls. 14 er sagt að það sé löng hefð fyrir slíkri verkaskiptingu þannig að þessu sé skipt á milli utanríkis- og þá varnarmálaráðuneyta meðal þeirra ríkja sem Ísland ber sig helst saman við, t.d. á Norðurlöndum.

Síðan segir hér:

„Samskipti við erlend ríki, alþjóðleg samtök, samningar við önnur ríki og gerð þeirra falla eftir sem áður undir málefnasvið utanríkisráðuneytis …“

Svo er bætt við:

„… nema slík mál séu með skýrum hætti lögð til annars ráðuneytis.“

Þá vil ég spyrja: Hefur komið til álita, til að koma í veg fyrir óljósa verkaskiptingu þarna á milli líkt og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi áðan, að færa allt batteríið yfir til innanríkisráðuneytisins og hafa ábyrgðina þá skýra? Væri það ekki að mörgu leyti einfaldast?

Ég nefndi að það væri slegið úr og í, og í lok þessa kafla þar sem því er haldið fram að verkaskiptingin eigi að vera þannig milli ráðuneytanna að utanríkisráðuneytið fari með fyrirsvarið við erlend ríki segir:

„Þrátt fyrir skýra formlega afmörkun í reglugerð um Stjórnarráð Íslands eru alþjóðleg samskipti af ýmsum toga orðin hluti af daglegri starfsemi allra ráðuneyta.“

Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé kannski bara undir hælinn lagt hvenær hvert ráðuneyti fer með erlend samskipti fyrir hönd sinna málaflokka í staðinn fyrir að flækja málin með því að hafa þennan skýra greinarmun. Ég er ekki með endanlega mótaðar skoðanir á þessu en vil velta þessu upp í umræðunni.

Síðan aðeins um þverpólitíska samstarfið og samráðið og mótun öryggisstefnu fyrir Ísland. Þegar hæstv. utanríkisráðherra var áðan bæði í andsvari við hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Eygló Harðardóttur fannst mér ég hafa heyrt þessar ræður allar saman áður. Og viti menn, það var eflaust ekki orðrétt en þetta var nákvæmlega umræðan sem við áttum hér þegar Varnarmálastofnun var sett á fót og þá var það einmitt fyrrverandi formaður flokks hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem flutti þá ræðu. Það er m.a.s. skrifað inn í upprunalega frumvarpið um Varnarmálastofnun, með leyfi forseta:

„Stefnumótun á sviði öryggis- og varnarmála er því orðin viðameira verkefni en áður, en jafnframt verkefni sem miklu skiptir að sé unnið með víðtækri lýðræðislegri umræðu hér innan lands og á sameiginlegum vettvangi með grannþjóðum okkar. Undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar er að fyrir liggi vandað og faglegt hættumat á sviði varnarmála fyrir Ísland sem byggt sé á bestu þekkingu hverju sinni“.

Ég spyr: Hvað hefur breyst á þessum tíma? Var þessi vinna ekki unnin? (Forseti hringir.) Ef hæstv. ráðherra ætlar að koma með ræðu í lok umræðunnar vildi ég kalla eftir svörum við þeim spurningum sem ég var með áðan um kostnaðinn (Forseti hringir.) við hinn svokallaða breytingastjóra, af hverju forstjóranum sé ekki falið þetta starf, (Forseti hringir.) og spurningunni um fimm ára skipunartíma forstjórans.