138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[20:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit allt um það. Ég er algjörlega sammála skoðun hv. þingmanns. Það sem ég sagði en hv. þingmaður tók ekki eftir var að þess eru dæmi að þeir sem hafa talað fyrir stofnunina hafa túlkað tilgang hennar sem hernaðarlegan. Um það get ég sýnt hv. þingmanni skriflegt dæmi ef hún vill.

Að öðru leyti held ég að í þessum sal sé að myndast breiður vilji fyrir því að fara í stofnun innanríkisráðuneytis þó að vera kunni ágreiningur um tímasetningar. Það kemur svo sem ekki á óvart því að ég hef talið það vilja Sjálfstæðisflokksins. Væri hægt að vísa á dæmi um það úr fortíðinni að það væri líka vilji Framsóknarflokksins. Það sem mér finnst athyglisvert í þessari umræðu er hins vegar að það er greinilega meira en blæbrigðamunur á skoðunum þeirra tveggja talsmanna Sjálfstæðisflokksins sem tjá sig fyrir flokkinn í þessu máli.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði í andsvari sínu að hún teldi ekki komna nógu mikla reynslu á Varnarmálastofnun til að hægt væri að kveða upp úr um framtíð hennar. Það er sjónarmið sem vel er hægt að rökstyðja þegar menn horfa á það frá þeim sjónarhóli. Það vill svo til að hinn talsmaður Sjálfstæðisflokksins var allt annarrar skoðunar. Hann hélt allt öðru fram, hann var að því leyti til samkvæmur því sem hann sagði í ræðu 8. nóvember fyrir tveimur árum og ber að virða það við hann. Málið er einfaldlega það að tveir ólíkir pólar í Sjálfstæðisflokknum virðast vera að koma fram, annars vegar gamli póllinn sem byggir á stefnunni sem er leif frá kalda stríðinu og hins vegar sú stefna sem hv. þm. Jón Gunnarsson fylgir sem byggir á því að það er engin hernaðarleg ógnun við Ísland í bili að hans mati og hann vill móta stefnuna út frá því. (Forseti hringir.) Það er sjónarmið sem er allrar athugunar virði.