138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[21:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frumvarp er komið fram. Ég segi ekki að það taki á öllu því sem taka þarf á þegar kemur að málum sem snúa að vernd hinna minni hluthafa en hins vegar er ljóst að frumvarpið tekur á ýmsum veigamiklum þáttum og er til þess fallið að styrkja stöðu minni hluthafa. Það er vissulega vel.

Eins og rakið er í athugasemdum við frumvarpið er grundvallarreglan í félagarétti eðli málsins samkvæmt sú að meiri hlutinn ræður að jafnaði ferðinni í hlutafélagi en ekki minni hlutinn. Auðvitað á það að vera svo, meiri hlutinn hefur lagt það á sig að leggja fram nægilega fjármuni til að verða meirihlutaeigandi og í sjálfu sér þarf ekki að rökstyðja það mörgum orðum að þá er eðlilegast að meiri hlutinn ráði þar ferðinni.

Þetta mál er hins vegar aðeins snúnara. Við höfum líka séð það, reynslan hefur kennt okkur það og við höfum kannski lært það af biturri reynslu að meiri hlutinn hefur ekki í öllum tilvikum haft heildarhagsmuni fyrirtækjanna að leiðarljósi. Við þekkjum allt of mörg dæmi um að minni hlutinn hefur verið hlunnfarinn, meiri hlutinn hefur notað meirihlutavald sitt til að koma þannig fram við minni hluthafa að þeir hafa borið skarðan hlut frá borði. Meiri hlutinn hefur með öðrum orðum í þeim tilvikum verið að skara eld að sinni köku og þá á kostnað minni hluthafanna. Þetta er hið alvarlega í málinu sem hefur orðið meira áberandi á allra síðustu árum með aukinni þátttöku almennings í atvinnurekstri í þeim skilningi að fólk hefur verið að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, ekki endilega til að hafa áhrif á daglegan rekstur þeirra heldur m.a. til að ávaxta sitt fé og til að reyna að skapa sér framtíðartekjur, til að tryggja sinn hag, og hefur þar af leiðandi lagt fjármuni í fyrirtækin til að njóta afrakstursins af fyrirtækjarekstrinum sjálfum.

Þetta hefur verið gífurlega þýðingarmikið og þetta átti auðvitað heilmikinn þátt í þeirri uppbyggingu sem átti sér stað þrátt fyrir allt í atvinnulífi okkar á sínum tíma þegar upp risu mörg góð fyrirtæki og í ýmsum tilvikum góð fyrirtæki sem var farið illa með af þeim stjórnendum sem síðar komu höndum yfir þau fyrirtæki. Það var einmitt þetta sem smám saman varð til þess að það varð meiri vitund, vitundarvakning í þá veru að reyna að tryggja stöðu minni hluthafanna betur. Fyrir því eru margvíslegar ástæður. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að minni hlutinn hafi sinn rétt innan fyrirtækja. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að við tryggjum það að meiri hlutinn hlunnfari ekki minni hlutann í viðskiptum innan fyrirtækjanna þar sem meiri hlutinn ræður. En hitt er ekki síður mikilvægt að hafa í huga sem er það að markmiðið með minnihlutaverndinni er líka það að byggja upp traust. Fyrirtækjarekstur snýst öðrum þræði um traust, þ.e. að fólk hafi fullt traust á því að leggja fram peninga til reksturs fyrirtækja sem í eðli sínu er áhættusöm ákvörðun en það gerir það alla vega í trausti þess að leikreglurnar séu þannig að ekki sé hægt að hlunnfara minnihlutaaðila í fyrirtækinu. Þess vegna skiptir miklu máli einmitt núna eftir hrunið þegar traust fólks á atvinnurekstri hefur beðið hnekki, og við verðum vör við að fólk er hikandi við að leggja fé sitt í áhætturekstur, að leggja í rauninni fram áhættufjármagn til að byggja upp atvinnulífið einmitt þegar við þurfum á því að halda að fólk geri það í meira mæli.

Það tókst auðvitað mjög vel til á margan hátt í þeim efnum. Á sínum tíma þegar við settum inn skattalega hvata, sem sannarlega var umdeilanlegt, varð það til þess að eigið fé margra fyrirtækja styrktist vegna þess að menn lögðu, m.a. fyrir tilstuðlan hins skattalega hvata, fjármuni inn í fyrirtæki, þó að fólk gerði sér grein fyrir að það væri áhættufjármagn í sjálfu sér, af því að menn sáu líka þennan hvata, þetta hagræði sem þeir höfðu af því að leggja peninga inn í atvinnulífið með þessum hætti.

Núna skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að endurvekja þetta traust upp að nýju, þannig að almenningur í landinu og auðvitað líka fagfjárfestar sem kannski munar mest um peningalega séð, fari að leggja peninga í vaxandi mæli inn í atvinnulífið til að endurreisa það úr þeim rústum sem það á margan hátt stendur í um þessar mundir.

Þetta vildi ég segja svona almennt um þetta mál því að það skiptir máli til að átta sig á um hvað við erum að tala hér.

Ég nefndi áðan að það hefði á vissan hátt orðið dálítil vitundarvakning þar sem fólk var að átta sig á, og þar á meðal stjórnvöld, þýðingu þess að búa til einhvern ramma sem verndaði minni hluthafa og því er auðvitað ekki að neita að margt hefur vel verið gert í þeim efnum. Það kemur m.a. fram í athugasemdum við frumvarpið að á margan hátt er vel fyrir hlutunum séð að þessu leyti en ekki nægilega vel. Lögð var fram skýrsla á sínum tíma, árið 2004, um viðskiptaumhverfið hér á landi, í tilefni að því að þá voru gerðar ákveðnar breytingar á löggjöfinni til að stuðla að aukinni vernd minni hluthafa. Engu að síður var hér alltaf ákveðin fyrirstaða, einhver tregða, kannski einhver ótti sem gerði það að verkum að menn gengu ekki nægilega langt í þessum efnum. Ef við lesum núna t.d. hina umtöluðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hún á vissan hátt áfellisdómur um þessa hluti. Hún er frásögn af því þegar stórir ráðandi aðilar hafa verið að nota fyrirtæki með óeðlilegum hætti til að skara eld að eigin köku og hafa með því auðvitað hlunnfarið hina minni hluthafa. Ein ástæðan er örugglega sú að aðkoma minni hluthafanna hefur ekki verið sem skyldi. Vitaskuld er það svo að minni hluthafar eru oft og tíðum einfaldlega í þeirri stöðu að þeir eru óvirkir, þeir leggja fjármuni sína þarna inn, treysta á stjórnendurna, treysta á stjórnirnar sem eiga auðvitað að gæta hagsmuna þeirra eins og annarra (Gripið fram í.) en hafa ekki gert það, og treystu síðan auðvitað á lögin. Þegar við hins vegar horfum til baka og sjáum hvað gerst hefur blasir auðvitað við að þarna hefðum við þurft að styrkja löggjöfina meira.

Þegar ég lagði fram mín frumvörp á sínum tíma, á árum 2003–2005, sem miðuðu að því að reyna að styrkja stöðu minni hluthafa, var svarið sem maður fékk úr atvinnulífinu oft eitthvað á þá lund: Þingmaðurinn misskilur þetta, til þess eru einmitt stjórnir fyrirtækjanna að gæta hagsmuna hluthafanna. Þess vegna er það svo að þegar mál eru borin upp í stjórnum fyrirtækja hafa þær auðvitað hliðsjón af heildarhagsmunum fyrirtækjanna og þar með af heildarhagsmunum minni hluthafanna jafnt sem hinna stærri. Við vitum að þetta var ekki svona og við vissum það líka á þessum tíma að það voru mörg tilvik um það að litlir hluthafar báru skarðan hlut frá borði. Þess vegna var auðvitað verið að reyna að breyta þessari löggjöf og ýmislegt var gert vel í þeim efnum eins og ég nefndi þó að ekki væri nægilega vel fyrir því séð.

Ég fagna því að ýmislegt af því sem ég var á sínum tíma að vekja máls á hefur ratað inn í það frumvarp sem hér hefur litið dagsins ljós, en ég ætla samt sem áður að leyfa mér að rifja upp tvö þau frumvörp sem ég lagði fram á sínum tíma og lögð voru fram í mjög mikilli þverpólitískri sátt í þeim skilningi að við sem vorum flutningsmenn þeirra vorum fulltrúar allra þingflokka sem þá sátu á Alþingi. Engu að síður var það hlutskipti þessara frumvarpa að daga uppi á Alþingi. Þau voru lögð fram að ég hygg tvisvar sinnum. Meðflutningsmenn mínir voru hv. þingmenn Halldór Blöndal, forseti Alþingis og áður ráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, Hjálmar Árnason, þáverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi og núverandi formaður Vinstri grænna og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. (Gripið fram í: Og ekki dugðu.) Þetta var þungavigtarfólk sem flutti með mér þessi frumvörp en engu að síður náðu þau ekki fram.

Ég held að það hafi ekki verið vegna þess að það hafi verið beinlínis andstaða við einhver efnisatriði frumvarpanna. Ég man ekki betur en að á margan hátt hafi frumvörpin fengið tiltölulega góðar viðtökur. Menn móuðust eitthvað við með þeim rökum sem ég nefndi áðan, að menn yrðu að átta sig á því að stjórnirnar ættu að gæta hagsmuna allra hluthafanna, en engu að síður urðu þetta hin dapurlegu örlög þessara frumvarpa.

Þegar ég horfi til baka læðist a.m.k. að mér sá grunur að einhverju hefði kannski verið hægt að afstýra ef menn hefðu fetað þessa slóð. Í öðru frumvarpinu var sérstaklega tekið á stöðu þar sem um er að ræða verðlagningu á hlutafé þar sem viðskipti með það hlutafé hafa verið lítil. Þar var skilgreint nýtt hugtak, veltuhraði, sem átti að vera eins konar mælikvarði á tíðni eða umfang viðskipta með hlutafé í tilteknum hlutafélögum. Það var líka reynt að leggja vinnu í að skilgreina hugtakið skyldir aðilar til að reyna m.a. að skýra það hvenær skyldir aðilar mættu og mættu ekki eiga viðskipti. Markmiðið með því frumvarpi var að reyna að koma í veg fyrir að menn byggju til falskt verðmat á fyrirtækjum, að stórir aðilar nánast sölsuðu eða sygju til sín hlutafé minni hluthafanna án þess að þeir gætu komið vörnum við vegna þess að erfitt var að finna verð á markaði á hlutafé þeirra. Þess vegna var verið að reyna að búa til tiltekinn farveg, tiltekna aðferð við að meta hlutaféð, sem átti þá að gerast af þremur dómkvöddum matsmönnum, í þeim tilvikum þar sem ætla mætti að raunverulegt markaðsverð hefði ekki myndast á því hlutafé.

Í hinu frumvarpinu sem við lögðum fram, sexmenningarnir, var kveðið á um það, sem er líkt ákvæði og er í 4. gr. þessa frumvarps, að fara skyldi fram sérstök rannsókn á verðmati hlutafjár við tilteknar aðstæður, og síðan segir svo í 2. gr., með leyfi forseta:

„Hlutafélagi er óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða félögum sem þessir aðilar eiga ráðandi hlut í nema áður hafi verið aflað sérfræðiskýrslu. Sama gildir um kaup félags á eignum af móðurfélagi þess og þeim sem tengdir eru aðilum“ o.s.frv.

Það var einmitt við þessu ákvæði sem menn sögðu: Það þarf ekki sérfræðiálit, það þarf eingöngu að bera þetta upp í stjórninni, því að auðvitað mun stjórnin ekki láta félagið sitt kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða einhverjum slíkum aðilum, nema félagið hafi af því efnahagslegan ávinning. Nú vitum við betur, við vitum einmitt að þetta m.a. var tíðkað. Ég vildi vekja athygli á því í þessu samhengi.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ætla ekki að fara efnislega yfir einstakar greinar þessa frumvarps. Eins og ég sagði áðan líst mér á margan hátt vel á ýmislegt sem þar segir. Ég held að þetta sé tvímælalaust í rétta átt þó að ég sé ekki að segja að hér sé róið fyrir allar víkur í þessum efnum, en engu að síður er verið að stíga rétt skref.

Ég vil hins vegar óska eftir því að þegar málið kemur til kasta viðskiptanefndar Alþingis, af því að hér er formaður nefndarinnar og fleiri nefndarmenn nærstaddir, verði frumvarpið m.a. skoðað með hliðsjón af þeirri þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram ásamt allmörgum öðrum þingmönnum, þar sem m.a. fylgir með í fylgiskjali þau tvö frumvörp sem ég gerði hér að umtalsefni og ég flutti á sínum tíma. Vel má vera að þau séu á einhvern hátt barn síns tíma og þá þarf bara að skoða það, en ég tel hins vegar að þau hafi stefnt í þessa átt. Þau höfðu það að markmiði að reyna að tryggja rétt minni hluthafa. Ég held að þetta sé verkefni sem við þurfum að vera mjög vel á varðbergi gagnvart. Það er mikil breyting í viðskiptaumhverfinu, ekki bara af lagalegum ástæðum, heldur ýmsum öðrum ástæðum eins og við þekkjum. Á vissan hátt var okkur sem sátum á þingi kannski dálítil vorkunn að geta ekki alveg elt þessa þróun, svo hröð sem hún varð, og þess vegna þurfum við ævinlega að vera á varðbergi vegna þess að þróunin kann annars að fara fram úr okkur og löggjöfin ekki að taka nægilegt tillit til þeirrar þróunar.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum lýk ég máli mínu núna. Ég ítreka að ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og tel það vissulega skref í rétta átt.