138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:18]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal leitast við að svara spurningum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sérstaklega hvað varðar 2. gr. frumvarpsins. Eins og hann rakti er þessu ákvæði vitaskuld ætlað að reyna að tryggja hagsmuni minni hlutans þannig að meiri hlutinn geti ekki með einhverjum hætti sölsað til sín meiri verðmæti út úr félaginu en eðlilegt er í ljósi hlutdeildar hvers og eins í hlutafénu. Þarna eru raktar forsendur þess að hægt sé að krefjast og væntanlega fá dóm til að þetta gangi eftir, þ.e. að félagið innleysi hlut minni hluta í félaginu. Þetta ákvæði kemur varla til álita fyrir skráð félög vegna þess að þar eiga hluthafar ávallt útgönguleið í gegnum markaðinn en þeir eiga hann ekki í óskráðum félögum, þar sem alla jafnan er erfitt að selja bréf.

Innlausnarverðið byggir á ákvæðum í lögunum eins og þau eru núna. Í grundvallaratriðum eru þrír möguleikar hvað það varðar, sá einfaldasti er auðvitað að menn semji, nái samkomulagi, sem er væntanlega ásættanlegt fyrir bæði kaupanda og seljanda. Annar möguleiki er að það sé beinlínis tilgreint í samþykktum félags hvernig eigi að reikna út verð. Það eru mörg dæmi þess, t.d. í hlutafélögum sem eru stofnuð um starfsemi verkfræðinga, arkitekta eða eitthvað slíkt, að hefð sé fyrir því að menn selji sinn hlut þegar þeir fara á eftirlaun og þá eru oft ákveðnar reglur um það hvernig verðmæti hlutarins skuli reiknað. En ef ekki er hægt að ná samningum og ef ekki eru ákvæði í samþykktum um það hvernig eigi að reikna hlýtur að koma til kasta dómkvaddra matsmanna og þeir fara bara eftir þeim almennu viðmiðum sem gilda um mat á verðmæti eignarhluta, skoða efnahagsreikninginn og reksturinn og meta það (Forseti hringir.) eins og almennt er gert þegar lagt er mat á verðmæti fyrirtækja.