138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

hlutafélög, einkahlutafélög og ársreikningar.

569. mál
[22:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við munum ekki leysa allan vanda með lagasetningu, það er deginum ljósara. Það er varhugavert að trúa því og reyna að leysa allan heimsins vanda með lagasetningu. Það sem hæstv. ráðherra nefndi að skipti máli fyrir hluthafa er að koma eins snemma að þessu og mögulegt er til að gera athugasemdir. Það er satt og rétt og kannski snýr þetta að því að hluthafar í viðkomandi félagi hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum. Það er kannski verkefni okkar að sjá til þess að það sé tryggt í þessum lögum. Ég lít nú bara svo á að það hljóti að vera sameiginlegur vilji hv. þingmanna að svo megi verða. Það snýr að einum þætti sem hefur ekki verið ræddur svo áratugum skiptir en er mikið ræddur núna og það eru endurskoðendur. Það er kannski spurning hvort sá rammi sem þeirri stétt er búinn sé eins og við viljum hafa hann, hvort við þurfum að gera ríkari kröfur til þess að endurskoðendur upplýsi um ýmis mál þannig að menn geti séð viðvörunarljósin á réttum tíma, annaðhvort til að koma í veg fyrir að slys verði eða til að leita réttar síns ef svo ber undir.

Það er nú þannig sem ég lít á þetta, virðulegi forseti, og ég hóf ræðu mína á því að við erum hér með mörg mál, við erum í rauninni að taka á stóru verkefni. Það er ekkert verra. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fara í það núna, en einn af þeim þáttum er þetta frumvarp sem ég fagna og (Forseti hringir.) sömuleiðis held ég við þurfum að skoða fleira.