138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að tvennu: Hyggst ráðherra nota aðferðafræði Seðlabankans eða starfsmanna hans við notkun á þessu kerfi? Vegna þess að mjög mikilvægt er að skilgreina hlutina, það fer heilmikill kostnaður og vinna í það og ég ætla að vona að menn noti þær skilgreiningar sem starfsmenn Seðlabankans hafa komið sér upp.

Síðan er spurningin um það hvort ráðherra sé kunnugt um að þau gögn sem við erum að nota eða hyggjumst nota séu tímabundin. Ég rakst á það þegar ég var að kanna upplýsingar þegar ég var að reyna að koma á nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustunni að apótekum var bannað að geyma upplýsingar lengur en í 12 mánuði og þá var þeim eytt, þannig að það var ekki hægt að nota þær. Veit hæstv. ráðherra hvort upplýsingar frá skattinum, lífeyrissjóðum og öðrum slíkum eru til aftur í tímann, þannig að skanna megi þetta allt upp aftur? Er ekki nauðsynlegt að fara aftur fyrir hrun til að átta sig á hve greiðslufall og vandræði fjölskyldna voru mikil þá? Svo langt sem ég man eftir í ævi minni hafa alltaf verið til greiðsluvandræði á Íslandi.