138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þess má geta, sem kom reyndar ekki fram í framsöguræðu minni, að Seðlabankinn mun aðstoða við þessa vinnu og við höfum aðgang að sérfræðingum þeirra og þeirri reynslu sem þeir hafa af þessari vinnu. Við munum því vissulega byggja á aðferðafræði þeirra að verulegu leyti, líklega þó ekki algerlega. Við ætlum ekki að endurtaka rannsókn þeirra m.a. vegna þess að hún var það kostnaðarsöm. Það á að vera hægt að fá fram með minni tilkostnaði nógu nákvæmar upplýsingar og auk þess er ætlunin að taka tillit til ákveðinna þátta, m.a. bótakerfisins sem Seðlabankinn tók ekki nema að litlu leyti tillit til. Auðvitað verður reynt að gera það þannig að hægt verði að fá samanburðarhæf gögn eða niðurstöður yfir tímann. Ég treysti mér ekki óundirbúinn til að fara mjög náið út í ábendingar eða spurningar hv. þingmanns um aðgang að gögnum aftur í tímann hjá ýmsum aðilum, en ég veit þó að til eru ýmsar tölfræðilegar upplýsingar bæði hjá Seðlabanka, Hagstofu og fleiri aðilum sem lýsa íslensku þjóðfélagi og m.a. skuldastöðu langt aftur í tímann. Ég get tekið undir þá athugasemd þingmannsins að vissulega er það ekki neitt nýtt að Íslendingar séu skuldsettir og það er kannski eitt af því sem kemur mörgum á óvart í ljósi umræðunnar. Ef við skoðum t.d. fjölda á vanskilaskrá hefur þar vissulega fjölgað frá bankahruni en fjölgunin er miklu minni en ætla mætti. Það kemur kannski ekki til af góðu, það kemur til af þeirri ástæðu að mjög margir voru á vanskilaskrá í góðærinu einnig.