138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að hér er verið að safna mjög miklum fjárhagslegum upplýsingum og fyrir því eru auðvitað færð ákveðin rök, m.a. þau að aðstæður nú eru mjög sérstakar. Ég mundi ekki leggja fram frumvarp sem þetta við eðlilegar aðstæður og get því að einhverju leyti tekið undir áhyggjur þingmannsins af því að þessi gagnagrunnur gæti undir eðlilegum kringumstæðum verið óeðlilegt tæki fyrir hið opinbera. En nú eru kringumstæðurnar óeðlilegar og kalla á djarfar lausnir og þetta er ein af þeim.

Ég tek hins vegar ekki undir orð þingmannsins um að þarna séu nánast allar þær upplýsingar sem hægt er að fá um tiltekna einstaklinga því þetta eru eingöngu fjárhagslegar upplýsingar. Þetta eru upplýsingar um skuldir og vaxtakjör, eignir, tekjur og bætur en ekki upplýsingar um annað sem skiptir fólk jafnvel enn meira máli, trúarskoðanir og því um líkt.

Að mínu mati er ekki hægt að vinna þessa rannsókn svo vit sé í án þess að hafa aðgang að upplýsingum um eignir, skuldir og tekjur, þar á meðal upplýsingar úr bótakerfinu. Ég tel því að ekki sé hægt að vinna þessa rannsókn af viti án þess að safna þessu öllu saman ef menn á annað borð telja nauðsynlegt að fá yfirsýn yfir þessi mál, sem ég tel að sé.

Varðandi ábendingu þingmannsins um orðið ólíklegt þá er þar verið að vísa til þess að enginn dulkóðunarlykill er óbrjótanlegur en ég held að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því, nútímatölvutækni gerir kleift að búa til tölvulykla sem eru fræðilega séð brjótanlegir en í framkvæmd er ekki hægt að brjóta þá nema (Forseti hringir.) með einhverjum árþúsundalöngum tölvukeyrslum sem eru ekki hagnýtt vandamál.