138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að hann hefði ekki flutt þetta frumvarp við eðlilegar aðstæður og tekur þar af leiðandi undir áhyggjur mínar hvað þetta varðar. Það er ekki rétt að í þessum fjárhagslega gagnagrunni séu bara upplýsingar um fjárhag heldur eru þar líka ríkisfangsupplýsingar og ýmislegt fleira, t.d. upplýsingar um starfshlutfall, kyn og ýmislegt annað. Allt er þetta mjög vel persónugreinanlegt enda er hugmyndin sú að verið sé að kanna upplýsingar á bak við hvern einstakling.

Ég held, virðulegi forseti, að um leið og við áttum okkur á mikilvægi þess að fara í aðgerðir skulum við passa að fara ekki í einhverja aðgerð í tengslum við það sem við munum síðan sjá eftir. Ég held að afskaplega mikilvægt sé að nálgast þetta mál með mjög gagnrýninni hugsun og skoða í fullri alvöru hvort ekki séu aðrar leiðir færar sem eru vægari en líklegri eða jafnlíklegar til góðs árangurs. Það eru svo sannarlega margar leiðir til að rannsaka og við vitum að félagsvísindin hafa mörg og þróuð úrræði hvað það varðar. Hér erum við að opna fyrir mikla misnotkun og ég held að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að eitthvað vanti upp á þær upplýsingar sem við höfum núna þá komi ekkert í veg fyrir að við förum í aðgerðir til verndar heimilunum. Það vantar engar upplýsingar en þetta er eitthvað sem gæti hins vegar opnað á miklar hættur.