138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður bendir á ýmsar hættur á því að upplýsingar liggi úti um allt. Ég vil benda honum á að nánast allar upplýsingar, ég held allar upplýsingar á netinu, Facebook og allt þetta, eru geymdar. Hvert einasta orð, hver einasta mynd, allt er geymt. Þetta er speglað um víða veröld, hingað og þangað á milli landa og verið getur að afrit af einhverju skeyti á Íslandi hafi verið speglað yfir til Brasilíu og geymt þar í einhverri bankahvelfingu þannig að ansi mikið er vitað nú þegar. Það eina sem ég sé gott við þetta er að þetta er svo mikill haugur af gögnum að ekki nokkur maður geti unnið úr þessu.

Svo erum við að tala um rafræna sjúkraskrá og rafræna lyfseðla. Sjúkrasaga allra liggur fyrir á einum stað, vonandi varin af opinberum starfsmönnum, þannig að ýmislegt er geymt. Án þess að ég sé endilega að réttlæta það þá vil ég benda á að meira og minna allar þær upplýsingar sem hér er talað um eru geymdar hjá skattstjóra. Ég held að kjör lána og tryggingar séu ekki geymd hjá skattstjóra, en allt annað er geymt hjá skattstjóra í sex ár þannig að þetta er nú þegar töluvert mikil hætta.

Ég hef ekki haft sömu áhyggjur og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson af þessum lykli. Hann er nánast óbrjótanlegur og ef einhver vill endilega fá upplýsingar um einhvern ákveðinn einstakling getur hann farið miklu ódýrari og fljótlegri leið til þess heldur en að reyna að brjóta lykilinn, en það tæki fjölda ára.