138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á afstöðu hv. þingmanns enda ber honum engin skylda til að úttala sig um málið hér. Þó fannst mér ég greina að hv. þingmaður — og ég held að það eigi við um flesta sem nálgast þetta — hafi ákveðnar áhyggjur þegar kemur að miðlægum upplýsingum. Það er svo auðvelt að ná afskaplega miklum upplýsingum um einstaklinga. Um leið og búið er að koma þessu saman á einn stað er sannarlega hægt að misnota það þó svo að menn leggi upp með göfugum hætti þannig að þetta gangi út á að einfalda líf okkar og við getum nálgast það þannig. Það er að vísu ekki komin rafræn sjúkraskrá. Það eru ekki komnar upplýsingar um okkur öll en við gætum, svo ég farið yfir í það sem ég talaði um áðan, sett GPS-flögu í okkur öll. Það væri auðvitað allt annað líf ef allir gætu fylgst með öllum. Við gætum gert þetta í upphafi til að vernda börnin okkar og geta gengið að makanum vísum. Það getur vel verið að það sé göfugt en ég er ekki viss um að það muni leiða af sér góða hluti þegar upp er staðið.

Hér fullyrða menn að allar þessar upplýsingar séu hjá ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri er einn af sjö liðum sem menn ætla að fá upplýsingar frá. Ég var einhvern tíma að læra aðferðafræði í stjórnmálafræðinni sem snýst um hvernig menn rannsaka hlutina. Það er alveg magnað og hefur margoft komið í ljós að úrtök eru mjög auðveld og marktæk með 95% vissu og jafnvel 99% vissu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki skynsamlegt að skoða hvort við ættum ekki frekar að taka úrtök (Forseti hringir.) frá ríkisskattstjóra til þess að fá betri vísbendingar (Forseti hringir.) en við höfum núna.