138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina orðum mínum til hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns iðnaðarnefndar. Nú er staðan þannig að ekki hefur verið fundað í iðnaðarnefnd frá því einhvern tímann fyrir páska (Gripið fram í: Enda ekkert að ræða.) og er það kannski ekki alveg í takt við þróun í atvinnumálum í landinu að við skulum ekkert hafa um að tala þar. Mig langar sérstaklega að ræða málefni gagnavers á Suðurnesjum, Verne Holdings. Það er verkefni sem beðið hefur verið eftir af mikilli óþreyju enda mun það stuðla að mikilli atvinnusköpun og fjárfestingu á svæðinu. Að þessu verkefni hefur komið eitt virtasta fjárfestingarfélag Bretlands sem mun þegar upp verður staðið að öllum líkindum verða þar meirihlutaeigandi og eru miklar væntingar um að það hafi mjög góð áhrif á markaðssetningu fyrirtækisins. Vinnan er í fullum gangi hjá þessum aðilum, undirbúningsaðilum, en það strandar á afgreiðslu Alþingis á þeim lögum sem þarf að setja um starfsemi þessa fyrirtækis.

Ég vil því spyrja hv. þingmann, formann iðnaðarnefndar, að því hvað dvelji og hvenær við megum vænta þess að málið fái afgreiðslu. Ég fullyrði að við í Sjálfstæðisflokknum viljum afgreiða þetta mál úr nefnd sem allra fyrst þannig að verkefnið megi fara í sem bestan farveg.

Fyrst ég er kominn hingað í ræðustól, virðulegi forseti, vil ég nota tækifærið og ræða við formann iðnaðarnefndar, sem ferðamál heyra undir, um ummæli forseta Íslands í erlendum fjölmiðlum í gær. Þau hafa vakið mikinn ugg í ferðaþjónustu og ljóst að menn telja þau afar óheppileg og hafa miklar áhyggjur af því að þau verði til þess að draga úr þeim ferðamannastraumi sem ætlað var að kæmi til landsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann meti þessi ummæli og hvort til standi að funda í iðnaðarnefnd með fulltrúum ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) til að fara yfir þessi mál.