138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu og hvetja hv. iðnaðarnefnd til að ljúka þessu máli hið fyrsta. Í havaríinu fyrir jól var þetta mál á lista ríkisstjórnarinnar yfir þau mál sem klára ætti fyrir jól og nú er kominn 21. apríl. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur alltaf svarað því til að hlutur þessa ákveðna fjárfestis, sem formaður iðnaðarnefndar gerði hér að umtalsefni, væri algjörlega minni háttar og færi minnkandi. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt hvað gæti falist í þeirri lausn sem hann boðaði, að taka yrði tillit til siðferðislegra sjónarmiða án þess að stöðva verkefnið. Staðan er sú núna að verkefnið er stopp með öllum þeim alvarlegu afleiðingum fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum sem það hefur í för með sér. Ég hvet hv. iðnaðarnefnd til að afgreiða þetta mál farsællega, þetta er eitt af þeim málum sem getur skipt sköpum fyrir atvinnulíf, uppbyggingu og mannlífið á Suðurnesjum, sem mér er mjög umhugað um að komist upp úr þeim öldudal sem það er í.

Ég kem líka upp til að minna á að við í viðskiptanefnd Alþingis höfum verið að kalla eftir upplýsingum um eignarhald á bönkunum sem nú hefur verið komið í hendur kröfuhafa. Ég hef verið í samskiptum við samskiptastjóra skilanefndar Kaupþingsbanka. Mig langar að gera Alþingi grein fyrir því að ég óskaði eftir því við þennan ágæta samskiptastjóra að viðskiptanefnd yrði leyft að fá aðgang að lokuðu vefsvæði þar sem kröfuhafar eru listaðir, eða fá stærstu kröfurnar. Ég fékk það svar að þetta sé ekki löglegt, ekki samkvæmt (Forseti hringir.) lögum, og (Forseti hringir.) listinn er aðeins aðgengilegur á lokuðu vefsvæði fyrir kröfuhafa. Hins vegar er því bætt við að „fjölmargir hafi því aðgang (Forseti hringir.) að þessum upplýsingum, þar með talið ríkið sjálft“. Ég vil vekja athygli á því að viðskiptanefnd (Forseti hringir.) Alþingis er ekki heimilt að hafa upplýsingar sem einhverjum öðrum hjá ríkinu er heimilt að hafa. (Forseti hringir.) Ég tel það umhugsunaratriði.