138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er mikilvægt að fá niðurstöðu í þetta mál hið fyrsta en sú niðurstaða þarf að vera þannig að við getum verið stolt af henni og að tryggt sé að verkefnið nái fram að ganga án þess að við göngum fram af þjóð okkar í leiðinni. Ég hef fullan skilning á því viðhorfi að eigendur og stjórnendur bankanna standi í verulegri skuld við þjóð sína og eigi að standa reikningsskil gjörða sinna gagnvart henni. Við verðum hins vegar að virða grunnreglur réttarríkisins og við verðum líka að átta okkur á því að tilteknir aðilar sem tengjast þessu bankahruni eru í dag aðilar að atvinnulífi okkar. Þessi tiltekni fjárfestir, Björgólfur Thor, á hér fyrirtæki á ýmsum sviðum í símaþjónustu. Hann er einn af helstu hluthöfum í CCP tölvuleikjafyrirtækinu sem er talið eitt merkilegasta fyrirtæki í landinu og var að fá útflutningsverðlaun í gær, ef ég man rétt. Við þurfum að spyrja okkur að því hvort það geti verið hlutverk okkar hér í þinginu að ráðskast með það hverjir séu þóknanlegir sem þátttakendur í atvinnustarfsemi í landinu og hverjir ekki. Okkar lausn þarf að vera málefnaleg, hún þarf að vera sanngjörn og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi eru.

Varðandi ummæli forseta Íslands vil ég segja að ég tel að þau hafi verið mjög óheppileg. Ekki er tekið til greina að mikilvægt er að menn tali af stillingu um það ástand sem hér er. Vissulega eru það engar nýjar fréttir að Katla kann að gjósa í nánustu framtíð en það er mikilvægt að senda ekki þau skilaboð að hér sé eitthvert upplausnarástand. Stjórnvöld hafa góða stjórn á viðbúnaði vegna þessara hamfara og eins og við þekkjum erum við með sérfræðinga- og almannavarnarkerfi sem stenst fyllilega samjöfnuð við það sem við þekkjum (Forseti hringir.) best erlendis.