138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég hygg að sá lærdómur sem draga megi af rannsóknarskýrslunni, sem ég held að við séum mörg að lesa þessa dagana, sé sá helstur fyrir okkur alþingismenn að við ættum að líta á stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og stöðu Alþingis gagnvart því umhverfi, lagaumhverfi, sem við erum að móta úti í þjóðfélaginu.

Ég sagði hér í ræðu um daginn vegna skýrslunnar að stundum hafi skort á að Alþingi taki það vald sem það hefur. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að hugleiða. Mér finnst mjög mikilvægt, þegar við förum yfir niðurstöðu þessarar rannsóknarskýrslu, að við gaumgæfum stöðu Alþingis. Við skulum ekkert horfa fram hjá því að Alþingi hefur alls ekki haft nógu sterkt hlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held við séum sammála um það flest hér. Ég held við þurfum ekkert endilega að vera að deila svo mikið um það. Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar við metum rannsóknarskýrsluna, að við náum því að horfa fram á veginn og reynum að læra af henni, en ekki endilega stöðugt vera að setjast í dómarasæti um einstaka þætti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við náum þeim árangri í þessari umræðu.

Ég kom þó fyrst og fremst hingað upp vegna þeirra orða sem féllu í lok ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þegar hún lýsti samskiptum sínum við Kaupþing vegna eigenda þess fyrirtækis. Það er líka sá lærdómur sem við getum dregið af rannsóknarskýrslunni að enginn vissi í raun og veru hver átti nokkurn skapaðan hlut á Íslandi vegna þess flókna nets eignarhaldsfélaga og slíkra hluta sem hér höfðu skapast.

Ég get því miður ekki séð að nógu mikið hafi breyst í því efni og þar þurfum við líka að taka til hendinni. Við vitum ekkert hver á Íslandsbanka. Við vitum ekkert hver á Kaupþing-banka. Þetta er allt falið á bak við einhverja óljósa eigendur og Alþingi fær ekki upplýsingar um það hverjir þetta eru. Þetta er hluti af vandanum, Alþingi verður að fara að taka upp það vald sem það hefur, það á ekki að sætta sig við svör af þessu tagi.