138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í þessa umræðu um hlutverk Alþingis í stjórnskipuninni. Þannig er að velflest frumvörp, nánast öll, sem Alþingi samþykkir sem lög eru samin í ráðuneytum eða jafnvel í þeim stofnunum sem framkvæma lögin, sem er stórhættulegt. Ég hef margoft bent á þetta. Í gær ræddum við meira að segja frumvarp sem veila var í, galli, sem var aðlögun að EFTA-tilskipunum þar sem Hæstiréttur hafði komist að einni niðurstöðu og síðan komst ESA-dómstóllinn að annarri. Nú þurfum við að breyta lögum vegna galla í lagasetningunni upprunalega.

Nú er það spurningin: Ber ég sem þingmaður ábyrgð á þessum galla í frumvarpi sem var samið í ráðuneytinu og flutt af ráðherra eða ber ráðherra ábyrgð á því? Mér finnst ákaflega erfitt að bera ábyrgð á þessari lagasetningu en geri það samt eins og aðrir hv. þingmenn. Ég legg til að við skoðum þetta mjög náið og flytjum alla samningu lagafrumvarpa til Alþingis (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þannig að við berum sjálf ábyrgð á því sem við gerum en ekki á því sem aðrir gera. Síðan getum við flutt verkefni sem við samþykkjum í fjárlagafrumvarpinu, þar sem Alþingi er að samþykkja alls konar framkvæmdir, þýða bók þarna, byggja torfkofa hinum megin, byggja brú eða eitthvað slíkt, yfir til framkvæmdarvaldsins þannig að aðskilnaður á milli ríkis og framkvæmdarvalds sé alveg kristaltær. Ég legg til að hv. þingmenn geri það þannig að nefndir þingsins fái erindi frá ráðuneytum eða samtökum úti í bæ eða einstaklingum um að breyta þurfi lögum um þetta og hitt, nefndin taki síðan ákvörðun um að flytja frumvarp eða ekki, semji frumvarpið með aðstoð nefndasviðs sem þarf að efla og styrkja og sendi það síðan til ráðuneytanna til umsagnar um það hvernig gangi að framkvæma þetta.