138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að það næsta sem þarf að gera, í kjölfar þeirrar miklu greiningar á samfélaginu sem rannsóknarskýrslan er, er að leiða hugann að því hvernig við stígum næsta skref fram á við, að við sökkvum okkur ekki í hneykslun og andvörp yfir því sem átti sér stað heldur stígum skrefið fram á við. Við verðum öll að lifa við það, framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið, viðskiptalífið, að þetta er heldur ömurleg fortíð sem við eigum. Þá er það spurningin um það hvernig við getum stigið skref fram á við sem yrði okkur öllum til góðs. Ég satt besta að segja hef ekki svar við því en það er nú það sem ég velti mest fyrir mér.

Við hér í þinginu þurfum náttúrlega að gera það. Við þurfum líka að gæta okkar á því að halda ekki að við séum nafli alheimsins, að við getum leyst allt. Við getum leyst marga hluti en við getum ekki leyst allt.

Ég er sammála því að skilja þarf betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Við lögðum nokkur fram tillögu um daginn um það að ráðherrum yrði strax gert kleift, án stjórnarskrárbreytingar, að segja sig frá þingmennsku ef þeir svo kjósa. Vonandi getum við lagt áherslu á það að það fari hér í gegn og þá reynir á hvort menn meina það sem þeir segja og standa við það.

Ég er sammála því líka að frumkvæði þingmanna þarf að vera meira en ég vil hins vegar alls ekki segja að ég hafi þá reynslu að nefndir vinni illa. Þær nefndir sem ég tek þátt í vinna vel að þeim málum sem þær fá úr Stjórnarráðinu. Oft mega þau mál vera betur unnin þegar þau koma þaðan en það hlýtur að vera okkar að gera þau betri en þau eru þegar þau koma inn.