138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

fjárfestingarsamningar og atvinnugreinar.

263. mál
[12:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn en frá því að hann lagði hana fram hefur töluvert breyst í þessum efnum vegna þess að á Alþingi hefur verið lögð fram heildstæð rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem mun leiða til algjörrar byltingar í þeim efnum og gera okkur raunverulega samkeppnishæf þegar fjármagnseigendur leita sér að fjárfestingarkostum þvert á landamæri, af því að við vitum að við erum að keppa við önnur ríki og nágranna okkar um þessar fjárfestingar hverju sinni.

Frá árinu 1966 hafa verið gerðir einir sex fjárfestingarsamningar. Þeir eru ekki fleiri, þessum tækjum hefur ekki oft verið beitt. Ástæðan er líklega sú að fyrirkomulagið er mjög þunglamalegt. Ekki þarf einungis að fara í gegnum samningaviðræður við einstök fyrirtæki um gerð fjárfestingarsamnings heldur þarf líka að leggja fram frumvarp í þinginu. Það fer síðan í gegnum ferli í þinginu og í framhaldi af því þarf Eftirlitsstofnun EFTA að fara í gegnum málið og það tekur nokkra mánuði.

Um álverið í Straumsvík var gerður samningur árið 1966 og 1977 um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Árið 1997 var gerður samningur um álverið í Hvalfirði og árið 2003 voru tveir gerðir, þ.e. um álver í Reyðarfirði og síðan vegna stækkunar í Hvalfirði. Á árinu 2009 var einum samningi lokið vegna álvers í Helguvík.

Meiri eftirspurn hefur verið eftir gerð slíkra fjárfestingarsamninga af hálfu mögulegra fjárfesta hér á landi og því hefur sú er hér stendur áritað drög að fjárfestingarsamningi vegna gagnavers við Reykjanesbæ sem er í meðförum þingsins eins og menn þekkja. Jafnframt hef ég ritað undir MoU eða viljayfirlýsingar um gerð fjárfestingarsamninga, við köllum þetta léttari fjárfestingarsamninga, sem hafa þá losað menn undan ákveðnum hlutum gjaldeyrislaganna, annars vegar við Icelandic Silicon Corporation og Tomahawk Development og hins vegar við Becromal Iceland.

Fleiri aðilar eru að banka á dyrnar og vilja fá upplýsingar fyrir fram um hvað Ísland gæti boðið upp á í þessum efnum og þess vegna höfum við lagt fram frumvarp á þingi sem leggur þetta einfaldlega á borðið og gerir ferlið gagnsærra og sveigjanlegra og veitir okkur líka færi á að veita minni og meðalstórum fyrirtækjum ívilnanir, en eins og þið heyrðuð af upptalningu minni áðan hafa fjárfestingarsamningar alltaf verið gerðir út af mjög stórum fjárfestingum. Við þurfum líka að örva minni fjárfestingar og iðnaðarkosti og þess vegna held ég að frumvarpið sem lagt hefur verið fram eigi eftir að skipta sköpum. Þær ívilnanir sem lagðar eru til í frumvarpinu felast annars vegar í byggðaaðstoð fyrir fjárfestingarverkefni í landsbyggðarkjördæmunum þremur og samanstanda af stofnfjárstyrkjum, frávikum frá tilteknum sköttum og opinberum gjöldum og sölu eða leigu á landi eða lóð undir nýfjárfestingu á hagstæðu verði. Hins vegar er um almennan stuðning að ræða sem er þá óháður staðsetningu verkefnis en þó aldrei hlutfallslega jafnhár og heimilað er í landsbyggðarkjördæmunum og felur í sér þjálfunaraðstoð, t.d. aðstoð vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, rannsóknar- og þróunaraðstoð, aðstoð vegna umhverfistengdra verkefna o.s.frv.

Þær ívilnanir sem tilgreindar eru í frumvarpinu eru sambland af því sem þekkist í nágrannalöndunum og þeim ívilnunum sem eru í fyrri fjárfestingarsamningum en módelið er byggt á löggjöf Evrópusambandsins. Auðvitað eru mjög ströng skilyrði fyrir því að þessar ívilnanir verði veittar og ég veit að sú umræða á eftir að fara fram og málin verða kynnt enn betur í meðförum þingsins.

Þá er lagt til að nefnd fari yfir þær umsóknir um ívilnanir sem henni berast og fara þurfi í gegnum mjög strangt ferli. Mér þykir líka mikilvægt að hér komi fram að með þessu kerfi er sveigjanleikinn mun meiri, þetta tekur styttri tíma og fjárfestar vita nákvæmlega fyrir fram hvað Ísland hefur upp á að bjóða þannig að samkeppnishæfi okkar er allt annað með samþykkt slíkrar löggjafar en hefur verið hingað til.

Það sem er líka merkilegt í þessu frumvarpi og skiptir máli er að nefndin getur, að teknu tilliti til ákvæða stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, veitt ríkari ívilnanir til fjárfestingarverkefna á ystu jaðarsvæðum svo við tökum sem dæmi efnahagslega kaldari svæði á (Forseti hringir.) landsbyggðinni og það skiptir verulegu máli þegar (Forseti hringir.) kemur að því að við viljum beita þeim tækjum og tólum sem við höfum til að leiðrétta byggðaþróun í landinu.