138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

fjárfestingarsamningar og atvinnugreinar.

263. mál
[12:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta söguskýringu og yfirlit yfir það hvaða fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir. Tvennt stendur upp úr, annars vegar það að þetta ágæta frumvarp mun væntanlega þýða að betri yfirsýn verður yfir það sem í boði er og að þeir aðilar sem hafa áhuga á því að fjárfesta á Íslandi hafi greiðari aðgang að því að sjá hvaða leiðir eru hugsanlega opnar fyrir þá. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að samt sem áður þurfi alltaf að semja um hlutina, það þarf væntanlega að semja um útfærslur og ýmislegt þess háttar þó að þetta frumvarp verði að lögum.

Ef ég hef ekki misskilið hæstv. ráðherra þá er einnig nokkuð ljóst að í sjálfu sér eru engar viðræður eða vinna í gangi við gerð annarra fjárfestingarsamninga en þeirra sem við þegar þekkjum varðandi gagnaverið í Reykjanesbæ. Síðan hafa verið undirrituð minnisblöð, eða þessi sameiginlegi skilningur, við þau tvö fyrirtæki sem voru nefnd hér áðan.

Það er skylda okkar og ég veit að hæstv. ráðherra hefur það í hyggju með lagasetningunni að einfalda það kerfi sem við höfum og auðvelda erlendum fjárfestum að nálgast upplýsingar um hve gott er að fjárfesta á Íslandi. Hins vegar er það að sjálfsögðu áhyggjuefni að ekki skuli vera fleiri samningar á borðinu eða við komin enn lengra með þá aðila sem við vitum að eru áhugasamir, en hjá hæstv. ráðherra kom fram að margir eru að banka á dyrnar. Ég vona svo sannarlega (Forseti hringir.) að það lagafrumvarp sem hæstv. ráðherra nefndi hér verði til þess að flýta fyrir þeim aðilum og fjölga.