138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

uppbygging fiskeldis.

216. mál
[12:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Það skal engan undra að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé stoltur af bleikjueldinu og því starfi sem var í Hólaskóla og að það skyldi hafa verið nefnt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra réði húsum þar fyrr á tíð. Ég held þess vegna að það sé upplagt fyrir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að horfa til fiskeldis í heild. Þó að ég ætli alls ekki að draga úr mikilvægi bleikjueldis þá var reyndar grundvöllur fyrirspurnar minnar þorskeldi og ég vil fá frekari upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvernig hann horfir til þorskeldis. Hann nefnir að það sé ákveðinn vandi þar á ferðinni. Ég hygg að menn séu sammála um að farið sé að þrengja að þorskeldi í landi en menn hafa töluverðan áhuga á þorskeldi í sjó. Mig langar þá til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða skoðanir hann hafi í því efni.

Mig langar einnig að inna ráðherrann eftir því hvað líði starfi nefndar sem ég hygg að fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hafi sett á fót um grunn áframhaldandi þorskeldis þar sem átti að kanna hvaða möguleikar væru þar fyrir hendi. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra viti eitthvað um þessa nefnd eða hvort hún hafi týnst einhvers staðar í þeim stjórnarskiptingum og hremmingum sem hér hafa verið.

Ég held, og ég ætla að ítreka það við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þegar litið er til rannsókna á sviði fiskeldis þá sé það óumdeilt að það eru þau fyrirtæki sem stunda sjávarútveg sem skipta gríðarlega miklu máli. Það verður því að líta á þessa hluti í samhengi og þess vegna held ég að enn og aftur sé ástæða til að brýna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hætta að brölta þetta í kvótakerfinu og fara frekar að einbeita sér að því að tryggja afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna sem síðan þýðir áfram frekari nýsköpun og hagsæld fyrir Íslendinga.