138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[12:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér og svara þessari fyrirspurn. Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir bættu starfsumhverfi skelræktar á Íslandi og ef svo er með hvaða hætti?

Skelrækt eða kræklingarækt, hvernig sem við orðum þetta, hefur verið áhugamál margra um langt skeið og atvinnugrein einnig. Nú er þetta vaxandi atvinnugrein. Það eru um það bil 20 aðilar, ef ég man rétt, sem hafa áhuga á því að efla þessa grein. Það hafa verið stofnuð samtök sem heita Skelrækt, ef ég man rétt, og hafa þessir aðilar mikinn áhuga á, og hafa bent á, að hér gæti verið um að ræða stóriðju fyrir Ísland.

Fyrir 25 árum fóru menn af stað á Prince Edward eyju í skelrækt og nú eru flutt 20.000 tonn af bláskel frá þeirri eyju ef ég er ekki að rugla því saman við eitthvað annað.

Virðulegi forseti. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að bæta starfsumhverfið? Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög mikilvægt að ákveðin lagaumgerð sé utan um skelræktina og hefur ráðherrann sett fram frumvarp varðandi það. Mig langar hins vegar líka að vita hvort ráðherra hyggst beita sér fyrir því að meiri fjármunir séu settir í þróun í skelræktinni til að styðja við þau fyrirtæki sem þar eru á ferð. Einnig er mjög mikilvægt að fá svör við því, og velta því upp, hvernig aðstaða þessara fyrirtækja er til að ná í fjármagn. Þar veit ég að ráðherra getur beitt sér verulega, t.d. varðandi þá sjóði sem ríkið hefur yfir að ráða eða þær stofnanir sem eru undir ríkinu.

Það er mjög mikilvægt að lífríkið sé í rauninni vaktað og ekki síst lirfurnar sem eru nýttar í þessu eða eru í rauninni undanfari skeljarinnar sem sest á spottana eða kaðlana eða hvað sem við nefnum það. Það þarf að vakta hvenær þær eru best til þess fallnar og því hefði ég talið að hæstv. ráðherra ætti að beita sér fyrir því að setja fjármuni í að vakta þennan hluta. Einnig þarf að skoða frumvarpið sem hæstv. ráðherra lagði fram því að í 8. gr. þess sýnist mér að gert sé ráð fyrir að þeir aðilar sem stunda skelrækt eða hafa ræktunarleyfi beri meiri kostnað, t.d. varðandi heilnæmiskönnun, en aðrir aðilar í sjávarútvegi. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé réttlátt. Það er mjög mikilvægt að greininni, þessari vaxandi grein, verði boðið gott starfsumhverfi.