138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[13:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurnina um skelrækt. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þarna eigum við mikla möguleika. Við eigum þá möguleika að hér er hreinn sjór og mikið af náttúrulegum kræklingi. (PHB: Verður það ekki ríkisvætt líka?) Hver er ríkið? Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé hluti af ríkinu.

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er nú starfandi samráðshópur um kræklingarækt sem skipaður var af hv. þingmanni og þáverandi sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni 26. nóvember 2008. Samráðshópurinn var skipaður fulltrúum kræklingaræktenda og opinberra stofnana og var ætlað að gera tillögur um uppbyggingu kræklingaræktar. Þegar ég tók við starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í maí á árinu 2009 var starfandi samráðshópur um kræklingarækt í ráðuneytinu. Engin heildarlög voru um kræklingarækt og taldi samráðshópurinn að mikilvægt væri að bæta lagaumhverfi og þar með starfsumhverfi greinarinnar. Óskaði ég þá eftir því að bætt yrði úr þessu og samið sérstakt lagafrumvarp um skeldýrarækt. Samráðshópurinn hefur skilað frumvarpi um skeldýrarækt sem lagt hefur verið fram á Alþingi og hv. þingmaður minntist á og verður vonandi mælt fyrir því á allra næstu dögum.

Markmiðið með setningu sérstakra laga um skeldýrarækt er að skapa skilyrði til uppbyggingar og ræktunar skeldýra og setja fram reglur um starfsemina og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu sem geti þá styrkst á grundvelli skeldýraeldis. Sem kunnugt er er skeldýrarækt ný atvinnugrein sem hefur átt misjöfnu gengi að fagna á þeim tíma sem hún hefur verið stunduð. Eigi að síður eru bundnar vonir við það að atvinnugrein þessi geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum svo sem raun hefur orðið á með mörgum öðrum þjóðum. Með gildistöku laganna er ætlunin að stuðla að möguleikum kræklingaræktar og setja jafnframt atvinnugreininni skýrar reglur og umgjörð.

Ég vil einnig geta þess að á vegum ráðuneytisins er hafin vinna við athugun á stöðu greinarinnar en margt bendir til þess að veiðar og framræktun á kræklingi geti orðið arðbær. Það er þó ljóst að gera má ráð fyrir að verulegt þróunarstarf þurfi að fara fram í greininni áður en hún geti talist sjálfbær. Tilraunir með kræklingarækt eru nú stundaðar víða um land, á Vestfjörðum og Norðurlandi og einnig eru tilraunir hafnar á Austfjörðum. Fyrirtækið Norðurskel í Hrísey hefur stundað tilraunir með kræklingarækt í nokkur ár og selur fyrirtækið vikulega ferskan krækling á Evrópumarkað. Norðurskel stundar einnig tilraunaveiðar á kræklingi, m.a. í Hvalfirði, og lofar sú starfsemi góðu.

Hitt er alveg hárrétt að þessi grein býr við, eins og ég hef gert grein fyrir, skort á fjármagni til þróunarstarfs til að komast í það ástand að geta orðið sjálfbær fjárhagslega. Þar hafa komið að aðilar eins og Byggðastofnun og fleiri með hlutdeild í þessum fyrirtækjum en það er alveg rétt að það þarf meira til á bak við þessa atvinnugrein bæði í rannsóknum og í þróun. Að því er sérstaklega unnið í ráðuneytinu að standa bak við þróunarstarfið.

Lagafrumvarpið, sem hv. þingmaður minntist á, um skeldýrarækt mun líka skapa þessari grein þá stöðu að hægt verði að koma að henni með mun skipulagðari hætti en áður hefur verið þegar komin verða heildarlög um þá atvinnugrein. Ég tek undir með hv. þingmanni að við getum borið miklar væntingar til greinarinnar en hún mun þurfa sinn tíma í þróunarstarfi.