138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þessum dögum minna náttúruöflin á sig. Alvarlegt ástand hefur nú skapast í einu af landbúnaðarhéruðum landsins þar sem bændur þurfa hugsanlega að bregða búi og jafnvel skera niður fjárstofn. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn hafi ákveðin svæði í landinu, eins og hefur verið gegnum aldirnar, þar sem ekki er sýkt fé.

Virðulegi forseti. Ég vil fá að vitna í ályktun sem mér barst frá sauðfjárveikivarnanefnd Strandabyggðar og nágrennis sem hljóðar svo:

„Haustið 2009 kom upp lungnapest í sauðfé í miðvesturhólfi og hafa þegar drepist tíu kindur á einum bæ af völdum veikinnar. Lungnapest er áður óþekkt norðan Gilsfjarðarlínu og er því koma hennar á svæðið gífurlegt áfall fyrir sauðfjárrækt í landinu. Því gerir nefndin alvarlegar athugasemdir við fjárframlög til viðhalds og endurbyggingar Gilsfjarðarlínu og krefst þess að þegar í stað verði veitt nægt fjármagn til styrkingar hennar þannig að sauðfé hætti að rápa yfir línuna og sama gildir um Kollafjarðarlínu. Jafnframt krefst nefndin þess að ráðuneytið og/eða Matvælastofnun í samráði við sveitarstjórnirnar sýni sauðfjárbændum stuðning í verki og veiti fé til að útrýma þessari nýju pest á svæðinu.

Í Múlarétt í Kollafirði mun hafa komið ær úr Dalasýslu sem líklega hefur borið með sér lungnapest og einnig kemur fé að sunnan á hverju hausti fyrir á bæjum í Gilsfirði og Bitrufirði og jafnvel víðar norðan girðingar. Gilsfjarðarlína er mjög stutt varnarlína sem verja skal eitt af þeim svæðum sem lausast er við alvarlega smitsjúkdóma í sauðfé og er það því eitt af mikilvægustu svæðum landsins þegar kemur að því að sækja ósýktan fjárstofn vegna niðurskurðar eða kynbóta. Þannig getur orðið óbætanlegt tjón ef alvarlegir smitsjúkdómar komast inn á svæðið og ná þar fótfestu. Það er vitað að kindur fara yfir ristarhliðið við Kleifar í Gilsfirði þannig að skilyrðislaust verður að breikka ristina. Einnig fara kindur í allt of miklum mæli yfir girðinguna sjálfa sem hvort tveggja er algjörlega ótækt. Ef halda skal girðingunni gripheldri er ófært annað en að endurnýja ákveðna kafla á hverju ári og þannig endurnýist hún öll á fyrirframákveðnum árafjölda sem auðvelda mun viðhald. Að öðrum kosti drabbast girðingin öll niður og viðhald verður bæði dýrt og lélegt.“

Undir þessa ályktun skrifar Jón Stefánsson frá Broddanesi fyrir hönd sauðfjárveikivarnanefndar Strandabyggðar og nágrennis.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það hér að lokum, áður en ég beini fyrirspurn til hæstv. ráðherra, að þetta er eitt af mikilvægustu svæðum landsins þegar kemur að því að sækja ósýktan fjárstofn vegna niðurskurðar. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hyggst ráðherra, og þá hvernig, bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem skapast hefur vegna slæms ástands Gilsfjarðar- og Kollafjarðarlínu?