138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra langar strax í púltið að ræða Evrópusambandið en það verður aðeins að bíða.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hér er og svör hæstv. ráðherra þó að mér finnist þau ekki nógu afgerandi. Það sem hefur komið fram og við gerum okkur öll grein fyrir er að norðan þessarar línu er ómetanlegt svæði til þess að tryggja sauðfjárrækt í landinu. Þegar þurft hefur að skera niður fé í öðrum landshlutum hefur margsinnis verið leitað inn á þetta svæði og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við verjum það.

Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu áðan að almennt væri girðingin í góðu lagi. Það eru ekki þær upplýsingar sem ég hef af þessu svæði enda hefur reynslan sýnt okkur að þarna fer fé á milli hólfa. Það er gríðarlega mikilvægt að menn bregðist við og geri það fljótt. Reyndar kemur fram í þessari ályktun sem ég las áðan að það er líka hugsanlega eitt ristarhlið sem er ekki í lagi. Þess vegna verða menn að fara ekki með þetta of mikið inn í kerfið og geta brugðist við með þeim hætti að laga þetta.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi Evrópusambandsumsóknina, sem ég sé eftir hverri krónu í eins og hv. þingmaður. Að lokum væri forvitnilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að láta allt ráðuneytisfólkið sem er að garfa í að svara öllum þeim spurningum sem þar eru, hver grasspretta sé í 600 metra hæð í 10% halla og þar fram eftir götunum — það hefði kannski verið skynsamlegra að láta það fólk fara og labba með girðingunni og koma henni í lag til þess að tryggja fæðuöryggi okkar hér í framtíðinni. Ekki fáum við eitthvað ósýkt úr Evrópusambandinu, svo mikið er víst. Hæstv. ráðherra getur vonandi tekið undir það sjónarmið að þetta verði gert.

Að öllu gamni slepptu er þetta gríðarlega mikilvægt mál og ég treysti því að hæstv. ráðherra láti verkin tala í þessu máli. (Forseti hringir.)