138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrum sinnum í fyrirspurnum vikið að hinni svokölluðu aflareglu varðandi nýtingu á þorskstofninum. Eins og ég hef stundum vakið athygli á þá var ákveðið í ríkisstjórninni í maí í fyrra að fylgja næstu fimm árin 20% aflareglu í þorski. Þessi ákvörðun var síðan send Alþjóðahafrannsóknaráðinu í Kaupmannahöfn sem tók aflaregluna út og eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni fyrr á þessu ári var niðurstaða ICES sú að þeir samþykktu aflaregluna og lögðu yfir hana blessun sína.

Mér finnst hæstv. ráðherra þurfa að gera okkur grein fyrir því hvert sé markmiðið með þeirri aflareglu sem er í gildi varðandi nýtingu á þorskstofninum. Við erum að tala um aflareglu sem gildir ekki bara á þessu fiskveiðiári heldur næstu fjögur fiskveiðiárin. Ég geri ráð fyrir því að markmiðið sé að byggja þorskstofninn upp með einhverjum tilteknum hætti.

Þess vegna hef ég spurt hvert markmiðið með aflareglunni er. Enn fremur vil ég leita eftir því við hæstv. ráðherra hvert matið sé á því hver þróunin verður, bæði á viðmiðunarstofni, þ.e. fjögurra ára fiski og eldri, og hrygningarstofni á komandi árum ef þessari aflareglu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar verður fylgt á næstu fjórum árum til viðbótar við það ár sem nú er að líða.

Það er enn brýnna að spyrja um þetta núna vegna þess að nú liggja fyrir niðurstöður úr stofnmælingum botnfiska á Íslandsmiðum sem framkvæmdar voru í mars á þessu ári. Fram kemur í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunarinnar að bráðabirgðastofnmat á þorski sem er byggt á aldursgreindum vísitölum og aldursgreindum afla — það er mjög mikilvægt að undirstrika þetta, aldursgreindum vísitölum og aldursgreindum afla — bendi til þess að stofnstærð þorsksins í ársbyrjun 2010 sé nálægt fyrra mati, þ.e. að viðmiðunarstofninn sé nálægt 700 þús. tonnum. Margir höfðu gert ráð fyrir því að matið mundi benda til þess að stofninn væri stærri, hann væri að stækka eins og menn hafa heyrt á undanförnum vikum og mánuðum að sé mat sjómanna og útvegsmanna almennt.

Ef þetta verður niðurstaðan þá erum við væntanlega að tala um að verði þessari aflareglu fylgt muni aflaheimildir á næsta ári dragast saman og ekki verða 150 þús. tonn heldur kannski nær því að vera á milli 140 og 150 þús. tonn. Til viðbótar við þetta liggur fyrir þinginu frumvarp um svokallaðar strandveiðar sem mun gera ráð fyrir því að allt að 5 þús. tonn eða svo af þorski verði dregin frá aflakvótanum áður en honum verður úthlutað þannig að ef þetta er bráðabirgðaniðurstaðan og vísbending um það sem koma skal þá sýnist mér að verði aflareglunni fylgt á næsta ári sjáum við að (Forseti hringir.) aflaheimildir muni dragast nokkuð saman. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra þeirra spurninga sem ég hef þegar gert grein fyrir.