138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir svörin og þá ágætu umræðu sem hefur sprottið í kjölfarið á þessari fyrirspurn.

Ef hæstv. ráðherra fylgir eftir aflareglunni sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og hyggst taka frá 5 þús. tonn af kvótanum til að deila út til strandveiðiflotans, eru þá ekki líkur á því að úthlutað aflamark minnki frá þessu ári til næsta fiskveiðiárs?

150 þús. tonnin voru þannig til komin að þar var að hálfu leyti tekið tillit til aflaúthlutunar ársins á undan sem var 160 þús. tonn. Aflamarkið hefði verið 140 þús. tonn ef ekki hefði verið tekið tillit til úthlutunar ársins á undan. Nú er það 150 þús. tonn. Hér segir að bráðabirgðaniðurstaðan gefi til kynna að 20% af viðmiðunarstofninum séu 140 þús. tonn, sem þýðir að miðað við algjörlega óbreyttar forsendur gæti aflamarkið verið í kringum 145 þús. tonn. Þá þarf að draga frá strandveiðarnar og erum við þá ekki farin að tala um, hæstv. ráðherra, að aflamarkið á næsta ári verði í kringum 140 þús. tonn?

Mér finnst afar brýnt að ráðherrann svari þessu vegna þess að umræðurnar hafa snúist um það hvort möguleiki sé á að auka aflaheimildir. Ráðherrann hefur ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því að fara þessa leið og hefur beðið um sérstakt álit til að undirbyggja ákvörðun ríkisstjórnarinnar og ég held að menn verði bara að tala hreint út í þessum efnum. Ef menn ætla að auka aflamarkið þá verður það ekki gert nema hverfa (Forseti hringir.) frá þessari 20% aflareglu ríkisstjórnarinnar.