138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar benda mjög til þess að hlutfall stærri fisks sé að hækka. Auk þess eiga eftir að koma inn frekari upplýsingar eins og úrvinnsla afladagbóka, netarall og síðan á eftir að skoða þetta mál í heild sinni. Ég hef því enn sterka og góða von um að aflamarkið geti verið hliðstætt og heildarveiðin á næsta ári svipuð og á þessu ári og sé ekki bein teikn þess að svo verði ekki. Hins vegar er ljóst að tilefni gefst ekki til stóraukningar á grundvelli þessa.

Við vitum að skiptar skoðanir eru á mati Hafrannsóknastofnunarinnar og Landssamband smábátaeigenda, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambandið koma til ráðuneytisins með tillögur sínar og auk þess fáum við fréttir frá sjómönnum um mat þeirra á fiski í sjónum. Samt er ég þeirrar skoðunar að hagsmunir okkar felist í því að umgangast þessa auðlind af varúð og horfa til framtíðar. Ég tek alveg undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að við þurfum líka að taka tillit til átumagnsins í sjónum, gulldeplu, loðnu og annars sem fiskurinn étur. Síðan kemur makríllinn og hann kemur ekki í kurteisisheimsókn, hann étur gríðarlega mikið á Íslandsmiðum. (Forseti hringir.) En ég tel að rétt sé að fara að öllu með gát en að sjálfsögðu á að nýta þessa auðlind okkar á sjálfbæran hátt. (Forseti hringir.) Það er það allra mikilvægasta.