138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.

212. mál
[13:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir þessi svör. Ég deili þeirri skoðun með honum að við þurfum að fylgjast mjög vel með á þessu sviði. Það er gott að heyra að staðan sé enn almennt góð, en það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að hlutirnir geta breyst afar hratt. Við skulum ekki gleyma því að íslensk heimili voru skuldugustu heimili í heimi áður en hrunið varð. Það þýðir að þau geta mörg hver verið í afar miklum vanda eins og við vitum og er það kannski stærsta verkefnið sem við okkur blasir og mesta efnahagsógnin.

Það var sláandi að sjá það í atvinnuleysistölum fyrir marsmánuð að 20% þeirra sem eru atvinnulausir voru á aldrinum 16–24 ára, eða um 3.400 manneskjur. Það er afskaplega há tala hjá þessum unga hópi. Ég held að við verðum að horfa sérstaklega til þessa hóps. Við þurfum afar mikið á honum að halda í framtíðinni, að hann komi ekki of laskaður út úr þeim atburðum sem hér hafa orðið.

Það var gott að heyra að verið væri að horfa sérstaklega til þeirra barna sem búa við atvinnuleysi beggja foreldra. Við vitum að langvarandi atvinnuleysi hefur áhrif á fjölskyldur. Þótt við getum verið ósammála um marga hluti á öðrum vígstöðvum hvet ég hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að menn fari í það að efla atvinnulífið til að koma þessu fólki í vinnuna sem fyrst, þannig að við þurfum ekki að vera að leita að félagslegum úrræðum einvörðungu. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið í því efni.

Ég vil að lokum fá nánari upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um þetta. Þar sem ég var að spyrjast fyrir um samstarf á milli ráðuneytanna var ég sérstaklega að vísa til menntamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins hvað varðar börn og ungmenni og hvort áformað sé af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma upp einhvers konar samtali eða aðgerðaáætlun, ég veit ekki hvað maður á að kalla það, milli þessara ráðuneyta í þessum mikilvæga málaflokki.