138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

heildarkostnaður ríkissjóðs af breytingum á heitum ráðuneyta.

551. mál
[14:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst reyndar skrýtið hvernig hæstv. ráðherra leggur þetta út. Eins og við vitum báðir, ég og hæstv. ráðherra, er þetta fyrst og fremst symbólískt og bara brot af kostnaðinum þær 3 milljónir sem þarna eru nefndar. Það er vægast sagt sérkennilegt að heyra hjá hæstv. ráðherra að þetta sé fjárfesting sem nýtist á komandi árum ef hæstv. ráðherra ætlar að fara í að klára þau verk sem getið er um í stjórnarsáttmálanum. Það gengur bara ekki upp. Það liggur fyrir að samkvæmt stjórnarsáttmálanum eru áform um innanríkisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og þá er sá kostnaður sem hér er nefndur bara einskiptiskostnaður, það liggur alveg fyrir. Hæstv. ráðherra getur ekki talað gegn staðreyndum í því máli.

Ég vona að það sé ekki svo að aðeins sé lögð áhersla á mál hjá ríkisstjórninni ef þau eru inni í heitum ráðuneyta eins og mátti skilja á orðum hæstv. ráðherra. Ferðamál, íþróttamál eða önnur slík eru ekki í heiti neins ráðuneytis en ég vona að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn taki þá málaflokka samt alvarlega þó að þau séu ekki komin inn í heiti ráðuneytis. Það liggur t.d. fyrir að ef hæstv. ráðherra er mjög umhugað um að hafa mannréttindi inni í heiti ráðuneytis verður a.m.k. að koma því einhvers staðar fyrir í ráðuneyti innanríkismála sem á að stofna samkvæmt stjórnarsáttmálanum og þar þarf að leggja út í kostnað. Þessi kostnaður, 3 milljónir í nafnbreytingar, er bara brot, agnarsmátt brot. Það er hins vegar symbólískt og segir nokkuð um það hvernig menn vilja vinna hlutina ef menn leggja mjög mikið út í kostnað eins og þann að skipta um nöfn á ráðuneytum.